25.7.2011

Mánudagur 25. 07. 11.

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik var leiddur fyrir dómara í Ósló í dag og úrskurðaður í átta vikna gæsluvarðhald. Gamall skólabróðir hans, Peter Svaar, sem nú er fréttamaður á NRK, norska útvarpinu, skrifar á vefsíðu þess:

„Allt sem hefur gerst eftir að sprengjan sprakk klukkan 15.28 á föstudag hefur verið samkvæmt áætlun hans [Breiviks] . Mesti ótti minn er sá að hann leiki áfram á okkur – fjölmiðla, almenningsálitið – eins og píanó.“

Um 150.000 manns fóru um götur Óslóar undir kvöld til að votta hinum látnu virðingu sína og aðstandendum þeirra samúð.

Nú hefur verið upplýst að PST, norska leyni- og öryggislögreglan, hafði athugað Breivik í mars vegna þess að hann keypti efni á válista frá Póllandi. Lögreglan gerði ekkert í málinu þar sem viðskiptin voru smávægileg og voru talin snerta búskap Breiviks.

Þetta atvik staðfestir tvennt: Með því að flytja út í sveit og þykjast stunda búskap tókst Breivik að skapa skjól til undirbúnings glæpaverki sínu. Forvirkar rannsóknarheimildir PST gera lögreglunni kleift að fylgjast með þeim sem kaupa hættuleg efni til innflutnings.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur boðað að ríkisstjórnin ætli á fundi sínum á morgun að ræða ódæðisverk Breiviks með hliðsjón af aðstæðum hér á landi. Ætlar Jóhanna að beita sér fyrir því að íslenska lögreglan fái forvirkar rannsóknarheimildir á borð við þær sem norska lögreglan hefur? Hvað með Ögmund Jónasson innanríkisráðherra ætlar hann að beita sér fyrir lagasetningu um slíkar heimildir?