22.7.2011

Föstudagur 22. 07. 11.

Þegar Fréttatíminn er lesinn verða menn að hafa í huga að þar eru við stjórnvöl menn sem störfuðu árum saman á Baugsmiðlum. Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, veigraði sér ekki við að snúast til varnar fyrir eigendur Fréttablaðsins þegar hann sat þar sem ritstjóri og Baugsmenn sátu ákærðir fyrir rétti. Hann er því að verja eigið skinn þegar hann gerir lítið úr þeim sem gagnrýna Fréttablaðið fyrir eigendaþjónkun. Í nafnlausum dálki í Fréttatímanum 22. júlí segir meðal annars:

„Björn [Bjarnason] fullyrðir í bloggi sínu að póstum Jónínu hafi verið stolið. Ekkert liggur þó fyrir um það. Aldrei hefur verið upplýst eftir hvaða leiðum póstarnir bárust Fréttablaðinu.“

Ég hef ekki búið þá kenningu til að tölvubréfum Jónínu Benediktsdóttur hafi verið stolið. Það hef ég eftir Sigurjóni M. Egilssyni sem hreykir sér af því að hafa komið þessu efni í blaðið. Hann sagði 2. maí 2009 á vefsíðunni Eyjunni:

„Eftir á að hyggja tel ég möguleika á að sá sem stal tölvupóstum Jónínu Benediktsdóttur hafi fengið greitt fyrir þá. Ég er svo sem ekki viss, en eðlilega hef ég oftsinnis hugsað um þetta. “

Í Fréttatímanum er mér bent á að M. í nafni Sigurjóns stendur fyrir Magnús en ekki Már eins komist hafði inn í höfuðið á mér og þakka ég þá ábendingu og bið Sigurjón M. velvirðingar og aðra sem þetta hefur valdið leiðindum.

Í pistli hér á siðunni i byrjun vikunnar sagði ég meðal annars:

„Baugsmiðlarnir, einkum Fréttablaðið, hafa þjónað eigendum sínum og stjórnmálamönnum í náð þeirra betur en Murdoch-miðlarnir skjólstæðingum sínum.“

Á Fréttatímanum segja þeir að þessi orð geri mig uppvísan „að einstökum þekkingarskorti um bresk stjórnmál og blaðamarkað". Allir viti að Murdoch leggi blöðum sínum pólitískar línur. Þá hafi Murdoch gefið fyrirmæli um efni á forsíðum blaða sinna. Þá segir í Fréttatímanum: „Engin slík tengsl liggja fyrir milli eigenda 365 og fjölmiðla félagsins.“ Þetta fullyrðir enginn nema sá sem hefur verið innanbúðar á Fréttablaðinu og telur sig vita allt sem vita þarf. Fullyrðinguna er ástæða til að ræða við annað tækifæri. Höfundurinn í Fréttatímanum kýs hins vegar að horfa fram hjá þeim dæmum sem ég nefni í pistli mínum um þjónkun Fréttablaðsins við eigendur sína vegna sakamáls á hendur þeim. Hvergi hefði Murdoch-miðli liðist slík þjónusta við eiganda sinn eða þá stjórnmálamenn sem hefðu lagt honum lið í málavafstrinu. Um það snýst samanburður minn. Blaðamenn News of the World birtu stolin gögn til að selja blaðið. Í Fréttablaðinu birtust stolin gögn til að styrkja stöðu eigenda blaðsins vegna sakamáls á hendur þeim.