Miðvikudagur 27. 07. 11.
Í Panorama kom ekki fram að það er síður en svo bundið við bresk blöð Murdochs að ritstjórnir kaupi upplýsingar sem aflað hefur verið á ólöglegan hátt af einkaspæjurum. Skýrsla sem birt var um málið árið 2006 leiðir í ljós að önnur blöð eru enn kræfari á þessu svið en Murdoch-blöðin. Þessi hnýsni um einkahagi fólks til að selja blöð eða hræða áhrifamenn til að hafa sig hæga gagnvart blöðunum eða eigendum þeirra hefur verið afhjúpuð á eftirminnilegan hátt í Bretlandi eins og sýnt var í Panorama-þættinum.
Hér á landi ber öðru hverju á því að fjölmiðlum sé beitt í þessu skyni. Á tíma Baugsmálsins kom til dæmis orðið „náhirð“ til sögunnar í áróðri Baugsmanna og gáfu þeir Baugsmiðlunum veiðileyfi á þá sem mynduðu þessara hirð. Reynir Traustason, ritstjóri DV, notar orðið enn í leiðara blaðs síns til að ná sér niðri á þeim sem eru undir illviljaðri smásjá blaðsins.
Að mati sífellt stærri hóps manna er gæðastimpill að verða fyrir aðkasti frá DV undir ritstjórn Reynis eða sitja undir persónulegum svívirðingum frá Ólafi Arnarsyni, stjörnupenna Pressunnar. Reynir og Ólafur hafa myndað bandalag um að viðhalda óvild í garð þeirra sem Baugsmenn áreittu á meðan þeir voru og hétu.