9.7.2011

Laugardagur 09. 07. 11.

Heyskapur er kominn á fullan skrið í blíðviðrinu í Fljótshlíðinni.  Fjöldi ferðamanna er á svæðinu þótt ekki séu þeir eins margir og á útihátíðinni á Gaddastaðaflöt við Hellu.

Ég skrifaði í dag leiðara á Evrópuvaktina um áhuga forystumanna í Þýskalandi á að auka miðstýringu innan ESB til að sigrast á evru-kreppunni. Mér finnst ólíklegt að viðræður Jóhönnu Sigurðadóttur og Angelu Merkel í Berlín á mánudag nái upp í þessar hugmyndir um breytingu á ESB úr ríkjasambandi í sambandsríki.

Þegar samfylkingarfólk og aðrir ESB-aðildarsinnar hér á landi ræða um ESB forðast þeir að minnast á evru-vandann eða önnur vandræði innan sambandsins. Þeir tala enn eins og þar sé allt í himnalagi, málið snúist bara um að bera saman íslensk lög og ESB-lagabálkinn og leysa úr tæknilegum vanda. Merkel verður áreiðanlega undrandi þegar Jóhanna tekur til við að ræða ESB-málefni á þessum forsendum en ekki stöðuna innan þess á líðandi stundu og hvert stefni í framtíðinni.