30.7.2011

Reynt að setja „einmana úlf“ í félag með öðrum

Í franska blaðinu Le Monde birtist skömmu eftir sprengjutilræðið í Ósló og blóðbaðið á Úteyju 22. júlí lýsing á tilræðismanninum, Anders Behring Breivik, sem „einamana úlfi“ eða loup solitaire á frönsku lone wolf á ensku. Vitnað var í  sagnfræðinginn Nicolas Lebourg við háskólann í Perpignan sem hefði sérhæft sig í öfgahópum til hægri og ofbeldisfullri stjórnmálabaráttu. Hann sagði að framganga Breiviks félli undir skilgreiningu á hegðun hins „einmana úlfs“ sem hefði komið til sögunnar meðal öfgamanna til hægri í Bandaríkjunum. Bandaríkjamaðurinn Joseph Tommasi hefði kynnt baráttu undir merkjum hins „einmana úlfs“ árið 1974 þegar hann stofnaði selluna National Socialist Liberation Front. Með þessari aðferð hefði Tommasi viljað breyta veikleika nýnasista í styrk.

Tommasi taldi vonlaust að fá almennan stuðning við öfgafull sjónarmið sín yst til hægri og bandaríska ríkisstjórnin væri auk þess taglhnýtingur zionista, lyti forræði ZOG, Zionist Occupation Government. Því óttaðist hann að flugumenn Bandaríkjastjórnar eða zionista smeygðu sér inn í raðir öfgahóps síns. Eina ráðið til að sýna styrk væri að einstaklingur gripi til hryðjuverka. Við þær aðstæður þyrfti aldrei að óttast að neinn hlypist undan merkjum sviki samstarafsmenn sína: maður léti einn til skarar skríða, stæði einn að voðaverkum. Tommasi var myrtur árið 1975. Kenning hans öðlaðist hylli á níunda áratugnum.

Lebourg segir að í Bandaríkjunum hafi hryðjverkamenn tekið til við að nota efni úr áburði til að búa til sprengjur árið 1970. Það sé kjörin aðferð fyrir „einmana úlf“ að nota bifreið og efni sem auðvelt sé að nálgast til að búa til sprengju. Aðferð af þessu tagi hafi að hluta verið beitt í Oklahoma City árið 1995. Hvatann að árásinni þar hafi verið að finna í Turner-dagbókunum, grundvallarriti ný-nasista sem William Pierce hafi sent frá sér, en hann hafi stofnað National Socialist White People's Party árið 1969 með Tommasi. Í Oklahoma City olli bílsprengja  dauða 108 manns og skaða á meira en 300 byggingum. Þannig megi í raun ná sama „árangri“ og í hernaði með búnaði sem krefjist einskis annars en þess sem unnt sé að kaupa án þess að grunsemdir vakni um að voðarverk séu í undirbúningi.

Á tíunda áratugnum tók áróður á netinu að hafa mikil áhrif meðal öfgasinnaðra hægrimanna í Evrópu og þeir smituðust af því sem fram hafði komið meðal nýnasista í Bandaríkjunum tveimur til þremur áratugum áður. Turner-dagbækurnar voru þýddar á mörg tungumál, andspyrna gegn ZOG vakti áhuga. Maxime Brunerie, „einmana úlfur“, færði þau rök fyrir tilraun sinni til að myrða Jacques Chirac, forseta Frakklands, að Chirac væri útsendari ZOG . Eftir 11. september 2001 magnaðist síðan upp hatur og óvild í garð múslíma. Anders Behring Breivik í Noregi segist berjast gegn íslam.

Þegar Lebourg er spurður um óvildina í garð íslam segir hann að undir merkjum hennar sameinist ýmsir pólitískir straumar. Eftir stríðið í Júgóslavíu fyrrverandi hafi andúðin á íslam náð jafnt til öfgamanna til hægri og vinstri. Eftir 11. september hafi ný-íhaldsmenn í Bandaríkjunum hvatt til baráttu gegn „ísmlam-fasisma“ og þeir hafi líkt baráttuaðferðum íslamista við aðferðir kommúnista á sínum tíma. Þessar kenningar hafi höfðað til almennings en ekki fræðimanna sem segi íslamisma allt annars eðlis en fasisma.

Kenning Breiviks um að vinstrisinnar beri ábyrgð á að íslam sé að leggja undir sig Evrópu heyrist víðar en í Noregi þar á meðal í Frakklandi. Á áttunda áratugnum hafi lítill hópur innan Þjóðfylkingarinnar frönsku haldið því fram að vinstrisinnar styddu innflytjendur til að fá þar varaliða í byltingarher sinn. Þá hafi orðið til orðræða sem mótist af arabaóvild með stuðningi hægriafla í Ísrael sem tengi Evrópubúa af arabískum uppruna við íslamista og þá síðan við fasista (nazislamista) sem séu samverkamenn vinstrisinna.

Til hafi orðið goðsögnin um „Evróarabíu“. Andúð á íslam eigi hljómgrunn meðal almennings og unnt sé að magna hana þannig að hún geti af sér róttæka „einmana úlfa“.

Ég endursegi hér það sem haft er eftir  Nicolas Lebourg í frönskum fjölmiðlum af því að hann leitast við að skýra og skilgreina voðaverk Breiviks í Noregi í samhengi við kenningar og atburði án þess ofstækis sem fljótt spillir fyrir öllum skynsamlegum og vitrænum umræðum.

Skilgreining hins franska sagfræðings er til dæmis miklu trúverðugri en margt af því það sem birtist í skrifum um Breivik hér á landi. Hjálmar Sveinsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur til dæmis lagt orð í belg á vefsíðunni Eyjunni og segir:

„Við vitum líka betur en áður að hryðjuverkahættan kemur ekki bara að utan. Hún kemur líka að innan. Hún stafar ekki bara af íslömskum ofsatrúarmönnum sem búa í fjarlægum deildum jarðar eða hafa komið sér þægilega fyrir í “hliðarsamfélögum” innan Evrópuríkjanna. Hættan stafar líka af hægri öfgamönnum sem afneita að vísu nýnasismanum en rækta og breiða út hatur sitt á íslamstrú, fjölmenningarsamfélögum, femínisma, pólitískri rétthugsun, “marxískri menningarstefnu”, frjálslyndi, vinstrimönnum, Evrópusambandinu og jafnvel Sameinuðu Þjóðunum.

Það er villandi að kalla Anders Breivik “einmana úlf”. Ótrúlega margt af því sem hann skrifar í sínu mikla manifestói les maður nánast á hverjum degi á bloggsíðum, til að mynda á kommentakerfi Eyjunnar og á mbl.is og amx.is.“

Þegar þessi texti hins íslenska stjórnmálamanns í Samfylkingunni er lesinn vaknar spurning um hvort unnt sé að halda uppi rökræðum, byggðum á staðreyndum og sagnfræðilegri greiningu þegar mál eru sett fram á þennan hátt.

Eitt er að hafa skoðun annað að grípa til ódæða í því skyni að vinna henni brautargengi. Það er hugarfar hins „einmana úlfs“ sem ræður úrslitum um að Breivik notar sprengju og skotvopn í þágu eigin málstaðar. Hann ákveður að búa þannig um hnúta út á við að hann geti í einsemd upp í sveit og dulargervi bónda búið í haginn fyrir voðaverkin. Að setja aðra undir sama hatt og hann af því að þeir eru ósammála Hjálmari Sveinssyni er einfaldlega forkastanlegt.

„Manífestóið“ sem Hjálmar nefnir er 1.500 síður að lengd og af fréttum má ráða að þar lýsi Breivik því í smáatriðum hvernig hann stóð að því að búa sig undir óhæfuverkin 22. júlí Á vefsíðu BBC segir einnig um efni þessa skjals:

„Samkvæmt því sem segir á and-islamisku vefsíðunni Document.no þar sem Breivik átti oft efni ásamt öðrum sem skrifuðu þar er „manifestóið“ að stórum hluta afritað beint frá „Unabomber“ eigin „manifestói“ Teds Kaczynskis með minniháttar breytingum eins og þeim að breyta orðinu „vinstrisinni“ í „menningarlegur marxisti“. Kaczynski situr nú í lífstíðarfangelsi fyrir sprengjuárásir í Bandaríkjunum frá 1978 til 1995, þegar hann sendi 16 sprengjur sem urðu þremur að bana og særðu 23, og vann verk sitt frá afskekktum kofa í Montana-ríki.“

Þegar tekist er á við fjöldamorðingja á borð við þá sem hér hafa verið nefndir til sögunnar og hugað að því hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að blóðug ofbeldisverk af svipuðum toga endurtaki sig ekki þjónar engum tilgangi og er í raun til skammar að skilgreina pólitíska andstæðinga sína í flokk með morðingjunum eins og Hjálmar Sveinsson leitast við að gera. Það verður hvorki gert í Noregi né annars staðar.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hefur áunnið sér traust og virðingu langt út fyrir raðir Norðmanna með framgöngu sinni 22. júlí og síðan. Heitstrengingar hans um að Breivik takist ekki að breyta norsku þjóðfélagi til hins verra eru mikils metnar. Hann hefur þó jafnframt sagt að framvegis muni Norðmenn tala um „undan og eftir“ 22. júlí. Að sjálfsögðu verður breyting spurningin er á hvern veg hún verður.

Öryggisráðstafanir verða auknar í Noregi. Spurning er hvort lögreglan verði vopnuð en norska lögreglan er ásamt hinni íslensku og bresku í hópi þriggja óvopnaðra lögreguliða í Evrópu. PST, norska öryggis- og leyniþjónustan, mun breyta áherslum sínum. Forstjóri friðarrannsóknarstofnunar í Noregi, Kristian Berg Harpviken, sagði við franska blaðið Le Monde að ekki væri þörf á meiri búnaði eða fjármunum í þágu norsku lögreglunnar. Hins vegar þyrfti að efla greiningarþjónustu og eftirlit í þágu löggæslu svo að lögreglan vissi hvert hún ætti að beina kröftunum.

Hér á landi er lögregla ekki eins vel mönnuð og í Noregi. Væru hlutfallslega jafnmargir í höfuðborgarlögreglunni í Reykjavík og nágrenni og í Ósló væru lögreglumennirnir 700-800 en ekki 350. Upplýsingastýrð löggæsla hefur skilað góðum árangri hér eins og sést á tölum um fækkun innbrota. Fyrstu sex mánuði ársins fækkaði innbrotum á landinu um 50% miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum ríkislögreglustjóra. Án heimildar til forvirkra rannsókna sem eru í höndum leyniþjónusta í nágrannalöndunum rekst íslensk lögregla hins vegar á hindranir sem gera henni ókleift að sinna störfum sínum sem skyldi miðað því þær kröfur sem eðlilegt er að gera til hennar.

Eftir árásirnar í Noregi 22. júlí boðaði Jóhanna Sigurðardóttir að lagt yrði mat á þær frá íslenskum sjónarhóli og málið yrði síðan rætt í ríkisstjórn. Um málið var fjallað á fundi ríkisstjórnarinnar þriðjudaginn 26. júlí og eftir hann sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að hugað yrði að breytingum á vopnalögunum. Hann sagði ekki í hvaða átt. Danski dómsmálaráðherrann sagðist einnig vilja huga að vopnalögunum þar eftir 22. júlí og hafa umræður Dana hnigið í þá átt að PET, danska leyniþjónustan, komi að útgáfu byssuleyfa, henni verði að minnsta kosti falið að veita umsögn um þann sem óskar eftir slíku leyfi. Við umsögn nýtir PET upplýsingar sem hún hefur heimild til að afla með forvirkum rannsóknum, það er án þess að einstaklingur sé rannsakaður án rökstudds gruns um að hann hafi framið afbrot.

Ögmundur Jónasson er haldinn tortryggni í garð löggæslu þegar um er að ræða eftirlit með mótmælendum og aðgerðasinnum. Hann vill ekki leggja stein í götu þeirra sem grípa til valdbeitingar í þágu pólitísks málstaðar. Þó hefur hann boðað tillögur um forvirkar heimildir fyrir lögreglu. Þær lykta af sýndarmennsku og  bæta í raun engu við gildandi heimildir.

Eðlilega er enginn samur eftir atburði á borð við þá sem gerst hafa í Noregi. Þáttaskil hafa orðið en þau leiða ekki sjálfkrafa til breytinga, þær verða ekki nema til þeirra sé vilji.  Skoðanaágreiningur verður áfram hvort sem menn draga skilin á milli hægri og vinstri eða á annan hátt. Að engin breyting hafi orðið má ráða af því að leitast er við að setja menn í lið með Anders Behring Breivik þótt ásakendur hafi ekki annað til síns máls en að vera ósammála þeim sem þeir vilja lítillækka á þennan hátt. Slíkur áburður er til marks um að flytjendur hans eru rökþrota og fokið er í öll önnur skjól.

 Anders Behring Breivik var „einmana úlfur“  og hann er það áfram þótt eftir ófyrirgefanlegan verknað hans sé af illvilja reynt að setja aðra í lið með honum.