1.7.2011

Föstudagur 01. 07. 11.

Nýlega lauk árlegum fundi heimsminjanefndar UNESCO í París. Hér má sjá nöfn og myndir frá þeim stöðum sem hlutu skráningu á heimsminjalistann að þessu sinni. Um þessar mundir eru fimm ár liðin frá því að Þingvellir hlutu skráningu á listann. Hér má lesa um þann atburð.

Klukkan 12.00 flutti Claudio Bisogniero, varaframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), erindi um verkefni og áskoranir bandalagsins á 21. öldinni í Öskju, húsi Háskóla Íslands. Fundurinn var vel sóttur. Fyrir utan stóðu nokkrir hernaðarandstæðingar og köstuðu skóm í myndir af Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO. Aumkunarverð uppákoma sem átti að vera fyndin að mati Stefáns Pálssonar, formanns Samtaka hernaðarandstæðinga.

Ég sá ekki Stefán í fundarsalnum en þar kvöddu tveir skoðanabræður hans sér hljóðs og lét annar þeirra frekar ófriðlega. Hvorugur setti Bisogniero eða aðra fundarmenn út af laginu og Bogi Ágústsson stýrði fundinum á þann veg að hann var friðsamlegur, málefnalegur og fróðlegur.


Á fundinum flytur Claudio Bisogniero, varaframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), erindi um stöðu og störf NATO.