2.7.2004 0:00

Föstudagur 02. 07. 04

Um hádegi rann stóra stundinn upp. Tillagan um Þingvelli var tekin fyrir og samþykkt einróma. Vegna þess hve sumar umsóknir og tillögur sættu mikilli gagnrýni, hafði dálítill kvíði um örlög Þingvalla sótt að okkur, en hann reyndist ástæðulaus. Tillagan hlaut mjög góðar undirtektir og öll umsóknarvinnan undir forystu Margrétar Hallgrímsdóttur og Alta.

Eftir að hafa tekið á móti heillaóskum ókum við á virðulegan og góðan kínverskan matstað og héldum upp á þessi tímamót með veglegri máltíð.

Við fórum síðan aftur á fundarstað og hlýddum á umræður um tillögu um varðveislu gamallar loftskeytastöðvar í Varberg í Svíþjóð. Virtist um tíma tvísýnt um að hún hlyti samþykki, þótt það gerðist að lokum við mikinn létti sænsku fulltrúanna.

Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í boði héraðsstjórans, en vegna þess hve langan tíma tók að afgreiða síðustu tillögurnar, dróst um klukkustund að hann hæfist eða til 21.00. Kínverjar ljúka margréttuðum málsverðum af á ótrúlega skömmum tíma og klukkan rúmlega 22.00 hittum við aðra Norðurlandamenn á fundinum, sem voru að fagna því, að samþykktir hefðu verið staðir frá Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.