2.7.2011

Laugardagur 02. 07. 11.

Okkur sem höfum setið á þingi með Jóhönnu Sigurðardóttur og gegnt ráðherraembætti á meðan hún var í stjórnarandstöðu kemur á óvart hve illa hún bregst við spurningum þingmanna eða öðrum tilmælum. Þetta er þó í samræmi við þá skapgerð hennar að hafa allt alltaf á hornum sér, hvort sem hún situr í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Í dag er upplýst í Morgunblaðinu að Jóhanna hafi ekki fundið tíma til að hitta forsætisráðherra Kína hér á landi á þeim tíma sem hentaði ferðaáætlun ráðherrans. Ekki hefur verið skýrt frá því hvaða mikilvæga erindi Jóhanna er að sinna á þessum tíma. Líklega hefur hún bara stokkið upp á nef sér þegar hún frétti um ósk Kínverjanna og ákveðið að hundsa hana.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag skrifar Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri um viðbrögð Jóhönnu við spurningum þingmanna og segir:

„Núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þekkir fyrirspyrjandahlutverkið vel. Þegar hún var í stjórnarandstöðu lagði hún einu sinni fram 107 fyrirspurnir á 17 mánuðum, frá október 2003 fram til febrúar 2005. Þá var reiknað út að þetta væru hátt í fjórar fyrirspurnir á hverri viku sem þingið sat og að færu sex vinnustundir að meðaltali í að svara hverri þyrfti stjórnarráðið að hafa tvo deildarsérfræðinga í því verki einu að undirbúa svör til Jóhönnu. Nú hefur Ríkisendurskoðun slegið á fingur forsætisráðherra fyrir slæleg vinnubrögð við að svara fyrirspurn frá stjórnarandstöðuþingmanni.“

Þessi orð ritstjórans á Fréttablaðinu sem að jafnaði styður Jóhönnu og ríkisstjórn hennar sýnir að á ritstjórn blaðsins hallast menn á sveif með þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem telja tíma Jóhönnu liðinn. Fréttablaðið fetar þar með í fótspor vefsíðunnar Eyjunnar sem styður Samfylkinguna en ekki Jóhönnu.