15.7.2011

Föstudagur 15. 07. 11.

Í dag ræddi Fréttablaðið við Gest Jónsson, hrl. og lögfræðing Jóns Ásgeirs, sem sagðist hafa samið stefnu fyrir hönd umbjóðanda síns gegn mér fyrir meiðyrði í bókinni Rosabaugur yfir Íslandi. Hún yrði birt mér í haust enda væri réttarhlé að hefjast. Í tilefni fréttarinnar sendi Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á DV, mér tölvubréf og bað um álit mitt á orðum Gests. Ég svaraði með þessu bréfi:


„þið vitið meira um meiðyrðamál á DV en ég og hef ég litlu við þekkingu ykkar að bæta á því sviði. Þegar mér var bent á þau pennaglöp mín að nota orðið „fjárdráttur“ í staðinn fyrir „meiriháttar bókhaldsbrot“ sem er refsivert á sama hátt og fjárdráttur leiðrétti ég það samstundis með opinberri yfirlýsingu og afsökun. Í annarri prentun bókar minnar hefur þetta einnig verið leiðrétt. Ég get í raun ekki sagt meira um þetta mál. Mér er ekki ljóst hvaða fleiri ummæli munu sæta stefnu af hálfu Jóns Ásgeirs. Menn taka á slíkum málum eins og þau eru fyrir þau lögð og snúast til varnar. Baugsmenn vildu á sínum tíma að ég yrði strikaður út af alþingi nú vilja þeir strika yfir þessa bók mína. Hún selst hins vegar vel og hef ég fengið fyrirspurnir um hvort ég kunni að skrifa hana fyrir erlendan markað til að menn utan Íslands geti áttað sig á viðskiptaháttum Baugsmanna, málaferlunum og stjórnmálabaráttunni sem kemur við sögu í bókinni. Ég hef ekki tekið ákvörðun um það efni en vissulega yrði meiðyrðamál af hálfu Jóns Ásgeirs efni í viðauka við bókina.“

Ingi Freyr birti þetta svar mitt á dv.is en sleppti þó fyrstu setningunni þar sem ég vísaði til þekkingar DV-manna á meiðyrðamálum enda sagðist hann ekki hafa spurt mig um það efni. Mér skildist þó á honum að undarlegt væri að stefna manni sem hefði leiðrétt það sem annar maður teldi sér til ávirðingar og beðið viðkomandi afsökunar. Líklega er það þess vegna sem Gestur Jónsson segir í Fréttablaðinu að þeir hafi ýmislegt fleira í pokahorninu gegn mér og þess vegna muni þeir sækja mig til saka.