31.7.2011

Sunnudagur 31. 07. 11.

Ég hef í mörg ár lesið Le Monde og dáðst að efnistökum blaðamanna þess þegar um flókin mál er að ræða þótt ég sé ekki sammála þeim skoðunum sem setja svip sinn á blaðið. Virðing mín á blaðinu er ekki reist á því sem ég hef lesið í því um Ísland, þótt margt af því sé hafið yfir gagnrýni. Sjaldan hef ég þó orðið meira undrandi en að sjá að blaðið birtir í enskri útgáfu á Le Monde diplomatique í ágúst 2011 grein eftir Robert Wade og Sillu (Sigurbjörgu) Sigurgeirsdóttur. Höfundar eru kynnti á þennan hátt í blaðinu:

„Robert Wade is professor of political economy at the London School of Economics; Silla Sigurgeirsdottir is lecturer in public policy at the University of Iceland. This is an updated version of “Lessons from Iceland”, first published in the New Left Review, London, September-October 2010.“

Þessi grein gefur brenglaða og að mörgu leyti alranga mynd af því sem gerst hefur hér á landi undanfarin ár og áratugi. Má lesa greinina hér. Hún er reist á samsæriskenningum þegar rætt er um íslensk stjórnmál og gefur alls ekki rétta mynd af þróun stjórnmála og viðskiptalífs eftir einkavæðingu bankanna.

Háskólakennararnir stökkva út í pólitísku laugina án þess að kunna sundtökin. Buslugangurinn er í samræmi við það.