Miðvikudagur 19. 07. 11.
Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, sló sér upp á því í síðustu viku að snúast af hörku gegn Murdoch-veldinu. Hann ríður hins vegar ekki feitu hrossi frá pólitískri viðureign sinni við Cameron um málið.
Í Fréttablaðinu er sagt frá því í dag að 37 umsækjendum um starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafi verið tilkynnt að hætt hefði verið við að ráða í starfið þrátt fyrir að ráðningarferli hafi verið lokið. Engin efnisleg skýring er gefin. Ákvörðunin er hins vegar í samræmi við þögnina sem Jóhanna Sigurðardóttir kýs að ríki um gegnsæja stjórnsýslu sína í anda skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvaða spuni verður notaður til að tala Jóhönnu frá því að vilja ekki upplýsingafulltrúa þegar hraðar hallar undan færi hjá henni en nokkru sinni - meðal annars vegna skorts á upplýsingum til dæmis um það sem gerðist í samskiptum Jóhönnu við kínverska forsætisráðherrann.