7.7.2011

Fimmtudagur 07. 07. 11.

Morgunblaðið hefur í tæpa viku leitað eftir svörum frá forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur um hvers vegna hún hafi neitað að ljá máls á því að forsætisráðherra Kína kæmi hingað til lands 14. júlí með 100 manna viðskiptafylgdarliði. Í dag gengur Hannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, fram fyrir skjöldu og segir Morgunblaðið fara með rangt mál. Jóhanna hafi samþykkt fund með kínverska ráðherranum hinn 14. júlí, en svo hafi ferðaáætlun hans breyst og nú sé unnið að því að finna nýja dagsetningu. Hann segir að ráðuneyti og kínverska sendiráðið hafi oft bent Morgunblaðinu á hið rétta í málinu.

Enn einu sinni lendir Jóhanna Sigurðardóttir í vandræðum vegna þess að henni er fyrirmunað að eiga eðlileg samskipti við þá sem beina til hennar spurningum. Nýlega veitti ríkisendurskoðun Jóhönnu ákúrur fyrir hvernig hún stóð að því að svara fyrirspurn á alþingi. Við ráðningu Más Guðmundssonar í stöðu seðlabankastjóra var þannig staðið að ákvörðun launakjara hans að gagnrýni sætti. Þá fór Jóhanna undan í flæmingi og reyndi að telja mönnum trú um að þau Már hefðu ekki rætt starfskjör hans þegar gengið var frá ráðningu hans.

Eitt er að Jóhanna og aðstoðarmaður hennar haldi illa á málum sem snerta ráðherrann og embættisfærslu hans annað að þingflokkur Samfylkingarinnar skuli líða ráðherranum að grafa undan trúverðugleika flokksins með þessari framkomu. Hið einkennilega er að því verr sem Jóhanna stendur sig þeim minni líkur eru á að þingflokkur Samfylkingarinnar hrófli við henni. Sífellt fleiri þingmenn Samfylkingarinnar óttast að ná ekki endurkjöri á þing verði gengið til kosninga. Jóhanna hótar þeim að rjúfa þing leyfi þeir sér að hrófla við henni.

Hernaðarlist Jóhönnu og Hrannars er nú sögð sú að hafa alla gagnrýni að engu og svara fjölmiðlum sem gagnrýna Jóhönnu fullum hálsi og saka blaðamenn þeirra um ósannindi. Hvorugt þeirra hafi í sjálfu sér nokkru að tapa þótt fylgi Samfylkingarinnar minnki, Jóhanna muni hvort sem er ekki bjóða sig fram að nýju. Minnkandi fylgi Samfylkingar minnki einnig líkur á því að þingmenn Samfylkingar ýti Jóhönnu til hliðar vegna ótta þeirra við kosningar.