18.7.2011

Mánudagur 18. 07. 11.


Í dag eru 50 ár frá því að Varðberg var stofnað og í tilefni af því ritaði ég grein í Morgunblaðið sem lesa má hér.

Þá skrifaði ég pistil hér á síðuna um Murdoch-fjölmiðlaveldið annars vegar og Baugsmiðlaveldið hins vegar. Þegar á reynir er vernd Baugsmiðlaveldisins meiri en Murdoch-veldisins. Baugsmiðlarnir, einkum Fréttablaðið, hafa þjónað eigendum sínum og stjórnmálamönnum í náð þeirra betur en Murdoch-miðlarnir skjólstæðingum sínum.

Í Bretlandi þorðu menn ekki að rísa gegn fjölmiðlaveldi Murdoch fyrr en dýrið var sært eins og einn álitsgjafi í Bandaríkjunum orðar það. Þá vilja margir komast út á völlinn til að skjóta það. Hér er enn skotið á þá sem vekja máls á eðli fjölmiðlastarfseminnar sem stunduð er og hefur verið í skjóli Baugs. Sárafáir þora í raun að horfast í augu við meinsemdina hvað þá heldur að taka á henni. Þess vegna hefur hún víða skotið sér niður.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hljóp illilega á sig með árás á sauðfjárbændur vegna hækkunar á lambakjöti. RÚV reynir að leggja honum lið eins og jafnan er gert á þeim bæ þegar vegið er að bændum. Það er víst liður í samfylkingarbaráttunni fyrir aðild Íslands að ESB. Hvað skyldu Gylfi og félagar segja um hinar miklu hækkanir á matvælum innan ESB að undanförnu?