30.7.2011

Laugardagur 30. 07. 11.

Það rigndi ekki í Fljótshlíðinni í dag þrátt fyrir spá um hið gagnstæða. Rut efndi til flóamarkaðar og var hann vel sóttur enda er margt fólk á ferð auk þess sem heimamenn sýna framtakinu áhuga.

Ég skrifaði pistil í tilefni voðaverkanna í Noregi og þeirrar áráttu að reyna að samsama aðra með honum og viðhorfum hans.

42% Frakka segjast „mjög hlynntir“ því að reykingar verði bannaðar á baðströndum en aðeins 9% eru „mjög andvígir“ því. Konur (77% en 71% karla) og þeir sem eru eldri en 65 ára (82% en 73% yngri en 35 ára) lýsa miklum stuðningi við að reykingar verði bannaðar. Það þykir sérstaklega forvitnilegt við niðurstöðu könnunarinnar að þeir sem eru lengst til vinstri eru andvígastir banninu, 45% þeirra eru á móti því.

Þetta kemur fram í franska blaðinu Dimanche Ouest France nú um helgina en minnt er á að hinn 3. febrúar hafi borgarstjórnin í New York bannað reykingar í görðum borgarinnar, ströndum og á öðrum stöðum undir berum himni. Bæjarstjórnin í La Ciotat í Bouches-du-Rhône héraði við Miðjarðarhafsströnd Frakklands hefur bannað reykingar á ströndum bæjarins.

Það mundi auka þrifnað í Reykjavík ef bannað yrði að kasta tómum sígarettupökkum frá sér á almenningssvæðum. Þá yrði það til þess að auka heilbrigði borgarbúa að vinna enn frekar gegn reykingum. Ég tel hins vegar fráleitt að flytja sölu tóbaks inn í lyfjaverslanir.