13.7.2011

Miðvikudagur 13. 07. 11.

Þegar ég ók austan úr Fljótshlíð upp úr hádeginu mætti ég fjölmörgum bifreiðum frá björgunarsveitum sem fluttu leitarmenn að Fimmvörðuhálsi vegna neyðarkalls frá belgískum karli sem hafði slasast og var einn á ferð. Hann fannst sem betur undir kvöld, heill á húfi. Hinir öflugu bílar voru táknrænir fyrir þær öflugu sveitir sem að baki þeim standa.

Í kvöld ræddi ég bók mína Rosabaug yfir Íslandi á fundi hjá Heimdalli. Einn fundarmanna spurði hvort Jón Ásgeir Jóhannesson hefði stefnt mér fyrir meiðyrði þar sem ég notaði fyrir mistök orðið „fjárdrátt“ yfir brot hans í stað þess að segja „meiriháttar bókhaldsbrot". Ég sagðist ekki hafa fengið neina stefnu. Fundarmaður hafði eftir Jóni Ásgeiri að hann hefði þegar stefnt mér fyrir nokkrum vikum.

Það er fróðlegt að fara á fundi eins og þennan og ræða bókina við fólk sem hefur lesið hana eða lesið um hana og heyra við hvað það staldrar.

Óli Björn Kárason vekur máls á því á vefsíðu sinni í dag, að í Bretlandi sé allt á öðrum endanum vegna þess að Murdoch-miðlar hafa brotist inn í síma og stolið upplýsingum. Fréttablaðið birti í september 2005 tölvubréf sem að sögn Sigurjóns Más Egilssonar, fréttaritstjóra blaðsins, var stolið frá Jónínu Benediktsdóttur og birti blaðið bréfin til að rétta hlut eigenda sinna með það fyrir augum að sanna að þeir sættu pólitískum ofsóknum og stjórnmálamenn hefðu sigað lögreglunni á þá.

Varð allt vitlaust hér á landi af hneykslun yfir innbrotinu í tölvu Jónínu? Nei, síður en svo. Menn létu sér nægja að hneykslast á efni stolnu bréfanna. Datt einhverjum í hug að eigendur Fréttablaðsins myndu hætta útgáfu vegna birtingar á stolnum einkabréfum? Nei. Þeir sem hefðu krafist þess, hefðu einfaldlega verið úthrópaðir sem óvinir ritfrelsis. Hefði ég sagt eitt orð um málið, hefði það verið notað í réttarsalnum til að eyðileggja málstað ákæruvaldsins.