Mánudagur 04. 07. 11.
Eins og sagt var frá í gær sagði Össur Skarphéðinsson við sjónvarpsstöðina Euronews 27. júní í Brussel að Íslendingar vildu ekki "sérstaka undanþágu" (special exception) frá sjávarútvegsstefnu ESB. Yfirlýsingin vakti undrun ef marka má Morgunblaðið í morgun. Jón Bjarnason, samráðherra Össurar og sá sem ber ábyrgð á sjávarútvegsmálum í ríkisstjórninni, velti fyrir sér hvort rétt væri eftir Össuri haft. Jón virtist álíta að hugsanlega hefði einhver staðgengill Össurar talað við sjónvarpsmanninn.
Mbl.is ræddi við Össur um málið. Hann sagði yfirlýsingu sína ekki fréttnæma. Hann hefði aldrei viljað undanþágu fyrir íslenskan sjávarútveg heldur sérlausnir. Hver er munur á undanþágu og sérlausn? Undanþágan er varanleg en sérlausnin tímabundin. Hvernig getur Össur staðið á því að þessi ummæli sín séu í samræmi við álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis sem hann segir að sé sitt alfa og omega í samskiptum við ESB?
Össur hefur hlaupið á sig með yfirlýstri eftirgjöf í sjávarútvegsmálum gagnvart ESB og ekki bætir úr skák ef hann segir að hann hafi gert það oft áður og þess vegna séu mistök sín ekki fréttnæm.
Fréttastofa RÚV notaði alla síðustu viku til að flytja Íslendingum rósrauðar fréttir af ágæti ESB og gagnsemi þess fyrir Íslendinga að gerast ESB-aðilar. Fréttastofan RÚV hefur hins vegar ekki sagt eitt orð um þá staðreynd að utanríkisráðherra Íslands vill fela ESB yfirstjórn 200 mílna efnahagslögsögu Íslands.