28.7.2011

Fimmtudagur 28. 07. 11.

Nú liggur fyrir að ríkissjóður hefur tapað rúmum 4 milljörðum króna á því hvernig haldið var á málefnum Sjóvá sem eigendur fyrir hrun eyðilögðu með skammarlegri framgöngu sinni. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sem stöðvaði hið gegnsæja söluferli á síðasta ári og beindi viðskiptunum á bakvið luktar dyr sagði við RÚV í kvöld að þrátt fyrir allt væri þetta góð niðurstaða  því að ríkið fengi tæpa fimm milljarða fyrir hlutinn.

Þessar fjármálasviptingar á kostnað skattgreiðenda er í samræmi við annað undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar. Nú berast fréttir um miklar blekkingar af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna aðstoðar við Sparisjóð Keflavíkur. Engu er líkara en svarthol hafi verið í sparisjóðnum þegar hann var færður undir ríkisbankann, Landsbanka Íslands. Öll kurl eru ekki komin til grafar varðandi ráðstöfun á skattfé almennings í þágu sjóðsins.

Sparisjóður Keflavíkur var kominn af fótum fram eins og fjármálastofnanir almennt í árslok 2008. Hvers vegna var haldið áfram að dæla peningum í sparisjóðinn?  Nú finnst svarhol í bókhaldinu, þar skakkar tugum milljarða. Hefur þetta ekki verið þekkt stærð í stjórnkerfinu um nokkurt skeið? Sýndu ekki áreiðanleikakannanir að ósk erlendra lánadrottna að vandinn snerist um marga milljarða?

„Tæra vinstristjórnin“ réð nýtt fólk að sparisjóðnum,  þar á meðal sparisjóðsstjóra sem nú er fríhafnarforstjóri í Leifsstöð. Auðvelt er að benda á pólitísk afskipti af málefnum sparisjóðsins undir handarjaðri Steingríms J. Allar fjárráðstafanir þessa formanns VG í þágu sparisjóðsins eru sama merki brenndar og fjáraustur hans í Sjóvá. Fyrirhyggjuleysi ræður ferð í stað fjármálalegs aðhalds. Hið eina sem honum dettur svo í hug er að hækka skattana.