Össur segir Íslendinga ekki þurfa sérlausn frá ESB í sjávarútvegsmálum
Að þjóðarétti eru yfirlýsingar þjóðhöfðingja, forsætisráðherra og utanríkisráðherra taldar þess eðlis að þær bindi viðkomandi ríki. Það er með öðrum orðum unnt að líta þannig á að þessir fulltrúar ríkja hafi stöðuumboð til að gefa yfirlýsingar sem bindi hendur annarra sem koma fram í nafni viðkomandi ríkis. Unnt sé að herma orð þessara forystumanna þjóðríkis upp á aðra embættismenn sama ríkis auk þess sem líta megi á yfirlýsingar þeirra sem skuldbindandi að þjóðarétti komi til milliríkjadeilu.
Þótt Jóhanna & co. telji sig geta farið sínu fram með offorsi og frekju í stjórnarráðinu hvort sem í hlut á kærunefnd jafnréttismála eða ríkisendurskoðun svo að ekki sé minnst á sjálft alþingi megna þau ekki að breyta þjóðréttarreglum og verða að átta sig á því að orð þeirra eru metin með vísan til þeirra og unnt að herma alþjóðlegar yfirlýsingar upp á þau eða embættismenn þeirra.
Hér er minnt á þetta vegna orða sem Össur Skarphéðinsson lét falla við fréttasjónvarpsstöðina Euronews mánudaginn 27. júní þegar hann tók þátt í hinum fyrstu „eiginlegu samningaviðræðum“ Íslendinga við fulltrúa Evrópusambandsins og sat meðal annars fundi með stækkunarstjóra ESB og utanríkisráðherra Ungverjalands sem þá fór með pólitíska forystu innan sambandsins.
Rætt var við Össur á Euronews um sjávarútvegsmál með þeim inngangi fréttamanns að margir á Íslandi óttuðust að aðild að ESB mundi leiða til samkeppni um fiskveiðar frá öðrum þjóðum. Össur sagði að önnur ríki yrðu að virða fiskveiðikvóta. Þá sagði hann orðrétt:
„Við þurfum enga sérundanþágu (special exception). Í þessu tilliti þurfum að tryggja regluna um hlutfallslegan stöðugleika sem þýðir í raun að þjóðir halda viðurkenndum hluta kvóta síns.“
Meginþema Stefán Hauks Jóhannessonar, formanns íslensku ESB-viðræðunefndarinnar, er að ESB hafi oft samið um sérlausnir við þjóðir. Leitað verði eftir sérlausnum af hálfu Íslands fyrir sjávarútveg og landbúnað. Samningur með slíkum sérlausnum verði lagður fyrir íslensku þjóðina í atkvæðagreiðslu að loknum viðræðum hans.
Í ljósi yfirlýsinga Össurar um að Íslendingar þurfi enga sérlausn í sjávarútvegsmálum vaknar sú spurning hvernig umboðsmaður hans, Stefán Haukur, ætlar að halda kröfunni um sérlausn til haga og sigla fram hjá yfirlýsingu Össurar 27. júní sem er bindandi að þjóðarétti verði málinu fylgt eftir af hálfu ESB. Að vísu er ólíklegt að það verði gert þar sem ESB segir að Íslendingar ráði ferðinni í viðræðunum. Fulltrúar þess líta vafalaust þannig á að með orðum Össurar sé hann að blúnduleggja vinsamlegar viðræður fulltrúa Íslands um sjávarútvegsmál eins og annað í viðræðunum við ESB.
Íslenska viðræðunefndin hefur ekki hreyft neinum athugasemdum við þá ályktun fulltrúa ESB að íslenski rýnihópurinn hafi fallist á meginsjónarmið ESB í landbúnaðarmálum. Þar hafa menn vænst ágreinings um tollvernd, heilbrigði dýra og plantna og aðra slíka hluti en ekki er unnt að skilja fulltrúa ESB á annan veg en þann að þeir hafi þegar ýtt öllum slíkum kröfum til hliðar og líti nú á það sem hlutverk sitt að sannfæra fulltrúa Bændasamtaka Íslands (BÍ) um að þeir séu á villigötum og best sé fyrir þá að láta strax af andstöðu við ESB.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist styðja varnarlínur BÍ meðal annars um tollvernd. Ætli viðræðunefnd Íslands að hverfa frá kröfu um hana verði hún að leita nýs umboðs frá alþingi.
Ekkert er fjær Össuri en leita eftir nýju umboði frá alþingi. Hann veit að slíkt dræpi viðræðuferlið. Andstaða við ESB-viðræðurnar hefur skerpst á þinginu frá því fyrir tveimur árum þegar VG-menn gengu í sigurvímu inn í stjórnarsamstarf sem hefur nú sprengt þingflokk þeirra vegna ESB-dekurs Steingríms J. Sigfússonar og Árna Þórs Sigurðssonar og fært fylgi VG niður fyrir Framsóknarflokkinn samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallups – aðeins Hreyfingin er nú minni en VG á alþingi.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, var einmitt með Össuri Skarphéðinssyni í Brussel þegar Össur sagðist ekki vilja neina sérlausn fyrir Ísland í sjávarútvegsmálum. Árni Þór hefur að sjálfsögðu ekki hreyft neinum andmælum við þeim orðum frekar en öðrum hjáleiðum sem Össur og embættismenn hans hafa valið framhjá því sem þó segir í hinu máttlausa áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis.
Þótt afstaða Árna Þórs bindi Ísland ekki að þjóðarétti verður þögn hans um þá yfirlýsingu Össurar að ekki sé þörf á sérlausn fyrir Ísland í sjávarútvegsmálum túlkuð sem samþykki og fráhvarf frá því sem tíundað er sem nauðsynleg skilyrði af Íslands hálfu í áliti meirihluta utanríkismálanefndar í kafla þess um sjávarútvegsmál.
Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis eru eftirfarandi skilyrði nefnd um efni samnings við ESB: 200 mílna lögsaga Íslands verði skilgreind sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði. Lögð verði áhersla á meginreglur hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna m.a. fullveldisréttinn um 200 mílna fiskveiðilögsögu. Íslendingar hafi forræði yfir sjávarauðlindinni og Íslendingar stýri sókn í veiðistofna er byggist á sjálfbærri þróun, ráðgjöf sérfræðinga og veiðireynslu. Íslendingar fari með samningsforræði við stjórn veiða úr deilistofnum. Ísland hafi rétt til að ákveða nýtingu stofna er krefjast markvissrar nýtingar líkt og loðnustofninn. Ísland haldi forræði sínu á sviði fiskveiða og hafréttar og tali eigin máli á vettvangi alþjóðastofnana í alþjóðasamningum. Frumskylda samningamanna Íslands er að tryggja að afrakstur auðlinda sjávar falli til á Íslandi. Þannig verði ekki veitt svigrúm fyrir erlendar útgerðir að fjárfesta hér á landi þannig að nýting auðlindarinnar og afrakstur hennar færist í raun úr landi.
Menn þurfa ekki að vera sérfróðir um ESB-rétt til að átta sig á því að þessu áliti meirihluta utanríkismálanefndar eru sett skilyrði um víðtæka sérlausn fyrir Ísland í sjávarútvegsmálum. Ef meirihlutinn hefði talið að virðing fyrir reglu ESB um hlutfallslegan stöðugleika dygði hefði hún ekki tíundað það sem að ofan er getið.
Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar segir meðal annars að Íslendingar skuli halda samningsforræði við stjórn fiskveiða úr deilistofnum. Vert að huga að þessum orðum í ljósi makríldeilu Íslendinga og Færeyinga við ESB og Norðmenn.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, situr undir þungri og vaxandi gagnrýni fyrir að brjóta ekki á bak aftur einhliða kvótaákvarðanir Íslendinga og Færeyinga sem byggðar eru á rétti þeirra samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Innan dyra í ráðherraráði ESB minnir Damanaki gagnrýnendur sína vafalaust á þá staðreynd að Íslendingar hafi sótt um aðild að ESB, ekki sé rétt að styggja þá mikið á meðan rætt sé við þá því að ef til aðildar komi verði þeir sviptir rétti til að ákveða sinn eigin veiðikvóta af makríl og yrðu settir undir ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB og ráðherraráðsins.
Yfirlýsing Össurar um enga þörf fyrir sérlausn í sjávarútvegsmálum er stuðningur hans við þá skoðun Damanaki að forræðið verði tekið af Íslendingum við ákvarðanir um veiði úr deilistofnum. Þögn Árna Þórs sannfærir hana og aðra embættismenn ESB um að ekki verði hreyft athugasemd af hálfu meirihluta utanríkismálanefndar undir formennsku hans.
Því miður er það enn til marks um veika pólitíska forystu í andstöðu við aðild Íslands að ESB að ekki skuli hafa verið brugðist við hinum tilvitnuðu orðum Össurar Skarphéðinssonar á pólitískum vettvangi hér á landi og hann krafinn skýringa á þeim. Pólitískt aðhald að utanríkisráðherra er svo máttlítið að hann kemst átölulaust sem upp með óvarlegar yfirlýsingar um lífshagsmuni Íslendinga á alþjóðavettvangi – yfirlýsingar sem eru eyrnakonfekt fyrir embættismenn ESB.