10.7.2011

Sunnudagur 10. 07. 11

Myndirnar af Rupert Murdoch og nánustu samstarfsmönnum hans á SKY-sjónvarpsstöðinni, sem undir eignarhaldi Murdochs, þar sem þeir komust ekki út úr heimili Murdochs í London í dag vegna ágangs fjölmiðlamanna, urðu að snúa aftur og velja bakdyr til að komast út að borða kvöldverð voru áminning um að fjölmiðlakóngurinn er í þröngri stöðu almennt vegna hneykslins á News of the World sem kom út í síðasta sinn í dag eftir samfellda útgáfu í 168 ár. Blaðið var stökkpallur Murdochs inn í breska fjölmiðlaheiminn fyrir 42 árum og síðan einn af hornsteinum fjölmiðlaveldis hans sem teygir sig um heim allan.

Löngum hefur vakið undrun mína hve forsætisráðherrar í Bretlandi leggja mikla áherslu á að hafa fyrrverandi ritstjóra á götublöðum sem upplýsingafulltrúa sína. Það er áminning um hve stjórnmálamönnum í Bretlandi er brýnt að eiga beinan aðgang að fjölmiðlum, ekki endilega til að tryggja stuðning þeirra heldur minnka líkur á árásum og uppljóstrunum um mál sem hneykslar almenning. Hneykslið tengt Murdoch að þessu sinni snýst einmitt um þær ólöglegu leiðir sem starfsmenn hans hafa farið til að afla upplýsinga um fólk í fréttunum, það er með því að brjótast inn í síma þeirra.

Þegar forystumenn innan Murdoch-veldisins eru dregnir fyrir lögreglu og dómara vegna vinnubragða sinna er líklegt að skuggi falli á fleiri en þá.

The Daily Telegraph birti dag eftir dag fréttir af því fyrir nokkrum misserum hvernig breskir þingmenn misnotuðu aðstöðu sína til að fá starfs- og húsnæðiskostnað greiddan af þinginu. Varð þetta til að minnka álit almennings á þingmönnum. Nú segja menn að blaðamenn fái á baukinn vegna fréttanna af ritstjórn mest selda blaðs Murdochs.

ráttur