5.7.2011

Þriðjudagur 05. 07. 11.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd alþingis vegna ummæla Össurar Skarphéðinssonar um að hann vilji engar sérundanþágur fyrir Íslendinga í sjávarútvegsmálum við aðild að ESB.

Þess er að vænta að fundurinn verði haldinn sem fyrst. Óhjákvæmilegt er að þingmenn vinni að því að upplýsa þjóðina um hver séu samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar nú þegar hinar „eiginlegu samningaviðræður“ við ESB eru hafnar.  Í raun er með ólíkindum hve þingmenn hafa gefið viðræðunefnd Íslands við ESB lausan tauminn í þessum viðræðum.

Ástæða þessara losaralegu vinnubragða er einföld: stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um neina stefnu vegna innbyrðis ágreinings. Þeir hafa ekki áhuga á því í sjálfu sér að auglýsa þennan ágreining sinn og þess vegna eru þjóðarhagsmunir settir á grátt svæði gagnvart ESB.

Það er með ólíkindum að stjórnarandstöðunni hafi ekki tekist að nýta sér þessa stöðu á þann veg að knýja fram afstöðu ríkisstjórnarinnar, kynna þjóðinni hin raunverulegu samningsmarkmið. Eitt er að vera þeirrar skoðunar að það sé best að semja til að þjóðin geti tekið afstöðu til þessa máls annað vera svo aumur við gæslu þjóðarhagsmuna að knýja ekki fram hjá ríkisstjórninni um hvað hún er tilbúin að semja.

Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn formaður utanríkismálanefndar, hlýtur að kalla nefndina saman til fundar í því skyni að skýra samningsmarkmiðin á þann veg að þjóðin skilji þau. Fundur nefndarinnar um þetta mál ætti að vera opinn til að allir gætu fylgst með því hver er hin raunverulega stefna stjórnarflokkanna og hvort stjórnarandstaðan hefur nægilega burði til að knýja fram svör um samningsmarkmiðin.