14.7.2011

Fimmtudagur 14. 07. 11.

Í hádeginu flutti ég erindi og svaraði fyrirspurnum í Rótary-klúbbi Hafnarfjarðar um Rosabaug yfir Íslandi.

Ég benti meðal annars á að væri mál af sama tagi og Baugsmálið til meðferðar hjá sérstökum saksóknara þætti mér ekki líklegt að maður í þeirri stöðu sem Jón Gerald Sullenberger hafði í Baugsmálinu yrði ákærður þar sem í lögum um sérstakan saksóknara væru ákvæði um réttarstöðu uppljóstrara. Þessi ákvæði eru nýmæli í íslenskum sakamálalögum en ákvæði í svipaða veru hafa hins vegar verið í samkeppnislögum.

Þegar til þess er litið hve mikið var gert úr því í Baugsmálinu að í aðdraganda kæru Jóns Geralds á hendur Baugsmönnum hefðu þjóðkunnir menn rætt saman um val á lögfræðingi fyrir hann vaknar spurning hvort við núverandi aðstæður yrði hneykslast jafn mikið og grimmilega yfir því að stuðlað yrði að uppljóstrun þess sem menn teldu ólögmætt athæfi fésýslumanna.