Þriðjudagur 11. 03. 14
Lýsingarnar á leitinni að MH370 Boeing 777 flugvélinni sem hvarf með 239 manns um borð á leiðinni frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína eru þess eðlis að í raun er enn erfitt að átta sig á hvað raunverulega hefur gerst.
Í BBC World Service heyrði ég samtal við ungan mann í Kuala Lumpur sem hafði hitt mennina tvo sem fóru um borð í flugvélina með stolin vegabréf og voru á leið um Peking til Evrópu, Frankfurt og Amsterdam. Hann er vinur annars þessara manna, 19 ára Írana, og sagðist hafa ekið mönnunum tveimur á flugvöllinn. Þegar fréttir bárust af hvarfi flugvélarinnar hefði móðir hins 19 ára Írana, búsett í Hamborg, haft samband við manninn í Kuala Lumpur og beðið hann að segja lögreglunni þar alla sólarsöguna. Hann sagðist hafa gert það að morgni sunnudags 9. mars, lögreglan hefði ekkert gert en sagt opinberlega að hún vissi ekkert hverjir mennirnir með stolnu vegabréfin væru.
Þá hefur dagblaðið Berita Harian í Malasíu eftir yfirmanni flughers landsins að klukkan 18.40 að ísl. tíma föstudaginn 7. mars hefði flugvélin sést í ratsjá nálægt smáeyjunni Pulau Perak í norðurenda Malakka-sunds í um 1.000 metra lægri flughæð en áður. Þá hafði vélin verið tvær stundir á lofti. Sé þetta rétt hefur flugvélin verið mun vestar en eðlilegt er á leið til Kína.
Loks eru getgátur um að vélinni hafi verið flogið til Norður-Kóreu.
Það er ótrúlegt að á tímum þessarar miklu leitar- og fjarskiptatækni skuli ekki takast að finna nein merki um svo stóra fullkomna flugvél.