Föstudagur 28. 03. 14
Þröstur Ólafsson hagfræðingur ritar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann lýsir undrun sinni á ummælum Jóns Ólafssonar prófessors um Úkraínumenn og Rússa í Spegli ríkisútvarpsins í vikunni. „Mér brá því óneitanlega að heyra hann bera hálfgert blak af Rússum og segja að við þessu hafi lengi mátt búast,“ segir Þröstur og í lok greinarinnar:
„Nú hafa Rússar aftur sett hótun eða beitingu hervalds á dagskrá í viðskiptum milli ríkja í Evrópu. Í ár eru 100 ár liðin frá upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri en 75 ár frá upphafi þeirrar síðari. Vonandi verður hægt að fá Rússa ofan af því að halda áfram á þessari háskabraut. Ef ekki, þá gæti ófriður verið aftur í boði.“
Þegar ræða Vladimírs Pútíns frá 18. mars 2014 til að réttlæta innlimun Krím í Rússland er lesin sést að eitthvað meira er í húfi. Hvað sem röksemdum Pútíns vegna Krím líður er forkastanlegt að fallist sé á aðferðina sem Pútín og hans menn beittu og leitt hefur til þeirrar stöðu sem Þröstur Ólafsson lýsir með orðunum að „þá gæti ófriður verið aftur í boði“ í Evrópu.
Ræðu Pútíns má lesa hér á ensku. Peggy Noonan, dálkahöfundur The Wall Street Journal, las ræðuna og lýsti henni svona:
„Hvað segir þessi merkilega ræða okkur? Þar er að finna röksemdir til að ganga lengra. Í Úkraínu situr til dæmis ríkisstjórn skipuð undirmálsmönnum sem aðrir stjórna – það þarf kannski að huga betur að því. Þar birtist mikil sorgartilfinning vegna sögulegra atburða og gengið að því vísu að áheyrendur séu sama sinnis. Þar birtist formleg óvild í garð Bandaríkjanna. […] Þar er boðað nýtt tímabil sem ekki hefur enn hlotið nafn. Dregin eru skil á milli áratuganna eftir fall Sovétríkjanna og þess sem við tekur – það er eitthvað harðneskjulegra, dekkra og árásargjarnara.
Hún segir okkur að þetta snýst ekki um Krím.
Hún segir okkur að þessu sé ekki lokið.“