Mánudagur 24. 03. 14
Í dag birti Morgunblaðið grein mína ESB-viðræðunum lauk í mars 2011 og má lesa hana hér. Oft hef ég minnst á blekkingarleikinn vegna ESB-viðræðnanna. Við upphaf þeirra var sagt rangt frá hve langan tíma þær myndu taka. Eftir að þær hófust var eðli þeirra lýst á rangan hátt. Eftir að þeim var hætt kemur í ljós að þær hófust í raun aldrei. Síðan er rifist endalaust um hvernig eigi að binda enda á óskapnaðinn!
Saenskarnetverslanir.is er vefgátt að sænskum netfyrirtækjum sem selja og senda vörur sínar til Íslands. Vefurinn er í boði Sænska sendiráðsins á Íslandi og frí þjónusta fyrir kaupendur og seljendur. Skyldi engum hafa dottið í hug að veita svona þjónustu fyrir íslensk fyrirtæki? Er þetta ekki kjörið verkefni fyrir Íslandsstofu og sendiráðin?
Ég skrifaði leiðara á Evrópuvaktina og vakti athygli á að ESB hefði þröngvað þremur ráðherrum í þremur ólíkum löndum til að láta af embætti, Silvio Berlusconi, George Papandreou og Jóni Bjarnasyni. Þá skrifaði Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður á DV, frétt eða fréttaskýringu sem mátti skilja á þann veg að ég hefði tekið upp hanskann fyrir Berlusconi! Þessi tegund af blaðamennsku er á lágu plani undir ritstjórn Reynis Traustasonar.