24.3.2014

ESB-viðræðunum lauk í mars 2011

Grein í Morgunblaðinu 24. mars 2014

Aðildarviðræðurnar við ESB strönduðu í raun áður en þær hófust. Ágreiningur um sjávarútvegsmál er óleystur síðan í mars 2011.

Dagana 28. febrúar til 2. mars 2011 var síðari rýnifundur viðræðuaðila um sjávarútvegsmál. Eftir hann átti framkvæmdastjórn ESB að gera skýrslu um niðurstöðu rýnivinnunnar og leggja hana fyrir ráðherraráð ESB. Íslendingar ætluðu ekki að ljúka gerð samningsafstöðu sinnar í sjávarútvegsmálum fyrr en rýniskýrsla ESB hefði verið kynnt þeim. Það hefur ekki verið gert enn þann dag í dag.

Hinn 27. júní 2011 hófust efnislegar viðræður fulltrúa Íslands og ESB. Við það tækifæri sagði Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra, að æskilegast væri að ræða strax um meginágreiningsmálin: landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál.

Brusselmenn höfðu þessa ósk utanríkisráðherra að engu.

Jón Bjarnason var rekinn úr ríkisstjórn 31. desember 2011 og tók Steingrímur J. Sigfússon við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fyrir lok janúar 2012 fór Steingrímur J. til Brussel og bað um rýniskýrsluna

Brusselmenn höfðu ósk Steingríms J. að engu.

Í bók sinni Ári drekans birtir Össur Skarphéðinsson frásögn af því helsta sem á daga hans dreif sem utanríkisráðherra árið 2012.

Hinn 9. febrúar 2012 vill Össur greina stöðuna í sjávarútvegsmálum gagnvart ESB og „leggja slagplan“.

Greining embættismanna er að ríki með makrílhagsmuni beiti sér að tjaldabaki gegn því að viðræður hefjist um sjávarútvegsmál. Fyrir þessu eru engar sannanir en Össur segist hafa „inngróna tilfinningu fyrir því sama“. Þá telja embættismennirnir hugsanlegt að ekki verði rætt um sjávarútvegsmál í ESB-viðræðunum fyrir kosningar í apríl 2013.

Össur segir að vaxandi vísbendingar gefi til kynna að Frakkar séu að snúast „nokkuð þétt“ gegn viðræðum um sjávarútvegsmál og Frakkar viðri við aðrar þjóðir skilyrði, sem Íslendingar muni aldrei samþykkja, fyrir því að viðræðurnar hefjist.

Slagplan utanríkisráðuneytisins er að formaður íslensku ESB-viðræðunefndarinnar fari til Írlands og Bretlands þar sem makrílhagsmunir séu mestir og kynni málstað Íslands. Sjálfur fari Össur til fundar við Alain Juppé, þáv. utanríkisráðherra Frakka. Telur Össur sig eiga hönk upp í bakið á Juppé vegna stuðnings síns við hernaðinn í Líbíu „þar sem ég lagði hausinn á höggstökkinn“ segir Össur og bætir við (bls. 51):

„Ég vil að við tökum upp í prédikanir okkar þá möntru að opni ESB ekki sjó [hefji ESB ekki viðræður um sjávarútvegsmál] fyrir kosningar [apríl 2013] verði það túlkað þannig af íslenskum almenningi að sambandið vilji okkur ekki inn næstu tíu árin. Það jafngildi því að ESB sé að stöðva viðræðurnar.“

Embættismenn utanríkisráðuneytisins fá þessi fyrirmæli frá ráðherra sínum hinn 9. febrúar 2012. Sjálfur fer Össur til fundar við Juppé hinn 7. mars 2012. Juppé vissi ekkert um makríldeiluna og hafði ekki áhuga á henni. Andstaða Frakka við að hefja viðræður um sjávarútvegsmál átti ekkert skylt við makríl.

Hinn 4. maí 2012 er Össuri orðið ljóst að vandann í sjávarútvegsmálum gagnvart ESB er ekki unnt að rekja til makríldeilunnar. Hann hittir þá Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, sem telur hugsanlegt að Frakkar vilji að Ísland fari í gegnum öll þröngu nálaraugun til að hægt verði að benda á það sem fordæmi þegar Balkanríkin fara í sín aðildarferli.

Þótt sósíalistar, flokksbræður Össurar, komist til valda í Frakklandi með François Hollande á forsetastóli og meirihluta í báðum þingdeildum að baki ríkisstjórn sinni haggast Frakkar ekki í andstöðu við að rætt sé við Íslendinga um sjávarútvegsmál.

Hinn 21. júní 2012 hittir Össur utanríkisráðherra Lúxemborgar, Jean Asselborn, jafnaðarmann og gamlan kunningja sinn, sem „þekkir alla evrópska sósíalista sem skipta máli“. Asselborn telur að ástæðan fyrir hörku Frakka sé ekki „helvítis makríllinn“ heldur sé franska embættismannakerfið inngróið á móti stækkun. Á en danum muni Frakkar þó gefa sig en ekki strax.

Hinn 11. mars 2014 sagði Steingrímur J. Sigfússon á alþingi:

„Í raun og veru er það sem er grætilegt eftir á að hyggja að okkur skyldi ekki takast að koma sjávarútvegskaflanum [...] lengra áfram þannig að við sæjum eitthvað meira hvar við stæðum í þeim efnum.“

ESB-viðræðurnar strönduðu í mars 2011. Frakkar, Spánverjar og Portúgalar sætta sig ekki við skilyrði Íslendinga í sjávarútvegsmálum.

Meira að segja Össur Skarphéðinsson þorði ekki að beita sér fyrir breytingu á þessum s kilyrðum.

Enginn þarf lengur að fara í grafgötur um stöðu ESB-málsins. Sé tilgangur ESB-viðræðna sá einn að „kíkja í pakkann“ er augljóst að Frakkar, Spánverjar og Portúgalar banna það að óbreyttu. Brusselmenn vilja að Íslendingar hverfi frá skilyrðum í sjávarútvegsmálum. Hver vill stíga til móts við þá?

ESB-viðræðunum er sjálfhætt. Formsatriði vefjast þó fyrir ríkisstjórn og alþingi. Deilan snýst um hver eigi að kasta rekunum. Að rifist skuli um hvort öll þjóðin eigi að koma að þeirri ákvörðun er í raun óskiljanlegt.