Miðvikudagur 12. 03. 14
Í dag ræddi ég við Ágúst Þór Árnason, brautarstjóra við lagadeild Háskólans á Akureyri, í þætti mínum á ÍNN. Ágúst Þór skrifar viðauka I við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um ESB-viðræðurnar og ræðir þar um aðildarferlið á 58 bls. Segja má að þetta sé þungamiðja skýrslunnar. Við lestur viðauka Ágústs Þórs fæst sýn á lögfræðileg, stjórnmálaleg og sagnfræðileg álitaefni sem hafa verður í huga við mat á stöðu Íslands gagnvart ESB.
Segja má að aðildarferli Íslands hefjist í lok níunda áratugarins en við urðum eftir innan EES fyrir 20 árum þegar Austurríkismenn, Finnar og Svíar gerðust aðilar að ESB og Norðmenn reyndu það. Hefðum við ætlað inn í ESB hefði EES-samningurinn aldrei verið samþykktur á alþingi.
Engu er líkara en árið 2009 hafi þeir sem stóðu að ESB-umsókninni haldið að farið yrði með umsóknina á sama hátt og gert var á sínum tíma þegar þáverandi EFTA-ríki áttu í hlut. Ágúst Þór telur þetta benda til þess að ekki hafi verið staðið nægilega vel að greiningu og mati á stöðu Íslands þegar haldið var af stað. Til marks um það er sú skoðun utanríkisráðuneytisins að aðildarviðræðurnar tækju 18 mánuði.
Í samtali okkar segir Ágúst Þór að sú afstaða sé í raun einkennileg að hér tali menn eins og það sé á valdi Íslendinga að halda ESB-viðræðunum áfram þegar ESB hafi í raun stöðvað þær árið 2011 þegar Brusselmenn ákváðu að afhenda ekki rýniskýrsluna um sjávarútvegsmál. Hann segir því í lok samtals okkar að viðræðurnar hafi ekki stöðvast í ársbyrjun 2013 heldur á árinu 2011.
Næst má sjá samtal okkar á ÍNN klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.