4.3.2014 21:00

Þriðjudagur 04. 03. 14

Margir hafa undrast hve fljótt tillaga utanríkisráðherra um að afturkalla umsóknina um aðild að ESB kom fram, að boðað hafi verið til þess sem í alþingi er kallaður útbýtingarfundur um kvöldmatarleyti á föstudegi til að leggja tillöguna fram. Fyrst á miðvikudeginum á undan, 19. febrúar, hófst umræða á þingi um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, það er um úttektina á stöðunni í aðildarviðræðunum og var umræðunni um skýrsluna ekki lokið þegar utanríkisráðherra lagði fram tillögu sína um afturköllun.

Hér má sjá viðtal mitt við Gunnar Haraldsson, forstöðumann hagfræðistofnunar, um skýrsluna. 

Sé lagt mat á það sem Gunnar segir er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að slíta beri ESB-viðræðunum, þeim sé í raun „sjálfhætt“ eins Ágúst Þór Árnason, einn skýrsluhöfunda, orðaði það, sjá hér.

Skýringin á því að utanríkisráðherra lagði fram tillögu sína svona fljótt með samþykki þingflokka ríkisstjórnarinnar var einfaldlega sú að ráðherrar og þingflokkarnir höfðu fengið kynningu á skýrslunni og höfðu sannfærst um að ekki bæri að halda áfram heldur ætti að slíta viðræðunum. Þeir gleymdu hins vegar að sjá til þess að koma efni skýrslunnar nægilega vel á framfæri við almenning og stjórnarandstaðan hafði greinilega ekki áhuga á að kynna sér skýrsluna eða öðrum efni hennar.

ESB-aðildarsinnar kusu að beina athygli frá efni málsins og snúa umræðunum þess í stað að spurningunni um þjóðaratkvæðagreiðslu og meint svik forystumanna Sjálfstæðisflokksins.

Þegar frá líður verður litið á um 500 ræður um fundarstjórn forseta á alþingi í umræðum um skýrsluna sem nýstárlega tilraun stjórnarandstöðu til að drepa mikilvægu máli á dreif.

Nú þegar lægir eftir fárviðrið í síðustu viku er tekið til við að fjalla um efni skýrslunnar. Þá munu allir skynsamir menn sjá að lengra verður ekki haldið á brautinni sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. mótaði inn í ESB. Málið er dautt hvernig svo sem alþingi kýs að ýta því til hliðar.