Laugardagur 22. 03. 14
Sérstakt rannsóknarefni er að kynna sér í hvaða tilgangi fólk kemur saman á Austurvelli vegna ESB-aðildarumsóknarinnar. Sé það til þess að knýja á um framhald viðræðna fulltrúa Íslands og ESB ætti fólkið frekar að fara á Place Schuman í Brussel og mótmæla þar. Við torgið eru þrjár byggingar, hver á sína hlið torgsins: framkvæmdastjórnar ESB, ráðherraráðs ESB og íslenska sendiráðsins.
Framkvæmdastjórn ESB hefur ekki afhent sendiráði Íslands rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Síðasta fundi viðræðunefnda Íslands og ESB vegna hennar lauk 2. mars 2011. Íslenska sendiráðið hefur beðið eftir skýrslunni í rúm þrjú ár. Frakkar, Spánverjar og Portúgalar hafa beitt sér jafnlengi gegn afhendingu hennar í ráðherraráði ESB.
Þeir sem nú eru í stjórnarandstöðu á Alþingi Íslendinga reyndu árangurslaust í tvö ár að knýja ESB til að afhenda rýniskýrsluna um sjávarútvegsmál. Ráðherrar kenndu makríl um að það tækist ekki. Það var alrangt. Annað hékk á spýtunni: ESB vildi að Íslendingar hyrfu frá skilyrðum sínum í sjávarútvegsmálum.
Vill fólkið á Austurvelli að fallið verði frá þessum skilyrðum til að ESB samþykki að ræða áfram við fulltrúa Íslands? Tala ræðumenn um það á þessum fundum? Vita þeir almennt nokkuð um stöðuna í ESB-viðræðunum?
Sé við íslensk stjórnvöld að sakast vegna strands ESB-viðræðnanna er eðlilegt að spyrja: Viltu að slakað sé á íslenskum skilyrðum um sjávarútvegsmál?
Spyr einhver þessa á útifundum?
Ríkisstjórninni ber að ýta ESB-málinu frá sér með skýrri einhliða yfirlýsingu. Það er ekki eftir neinu að bíða, ekki einu sinni utanríkismálanefnd alþingis.