30.3.2014 22:10

Sunnudagur 30. 03. 14

Aðalfundur Wagner-félagsins var haldinn í Norræna húsinu í gær. Að honum loknum var sýnd 110 mínútna löng heimildarmynd The Wagner Family eftir Tony Palmer frá árinu 2011. Þar birtist enn ein lýsingin á óvildinni sem ríkir meðal afkomenda Richards Wagners auk þess sem mikið var gert úr því hvernig nasistar níddust á listsköpun Wagners í eigin þágu undir forystu Adolfs Hitlers sem varð náinn vinur Winifred Wagners, tengdadóttur Wagners. Hún var ung send munaðarlaus frá Bretlandi til aldraðra hjóna í Berlín. Þau kynntu hana 17 ára fyrir Wagner-fjölskyldunni í Bayreuth í Bæjaralandi. Leiddu kynnin til að hún giftist hinum miklu eldri Siegfried, syni Richards. Vildi Cosima, móðir Siegfrieds, umfram allt að syni sínum tækist að viðhalda ættinni þótt hann væri samkynhneigður. Að Siegfried látnum og í miklum fjárhagsvanda kynntist Winifred Hitler. Segir í myndinni að aldrei hafi verið eins mikið umleikis við Wagner-reksturinn í Bayreuth en á árum síðari heimsstyrjaldarinnar þegar Hitler sendi þangað þúsundir hermanna til að uppljómast af hetjuverkum Wagners.

Bretinn Houston Stewart Chamberlain kvæntist Evu, dóttur Cosimu og Wagners. Ritverk hans voru gegnsýrð af gyðingahatri og boðskap sem kallaði á þýska þjóðernissinna. Hafa þau varpað skugga á minningu Richards Wagners að ósekju. Þau eru hins vegar svartur blettur á afkomendum hans eins og tengsl þeirra við Hitler.

Í myndinni er rætt við franska tónskáldið og hljómsveitarstjórann Pierre Boulez og er hann hinn eini sem ber blak af Wolfgang Wagner, sonarsyni Richards, syni Winifred og Siegfrieds, sem lengst stjórnaði Bayreuth-hátíðinni þar sem nokkrar óperur Wagners eru fluttar á hverju sumri og tryggði rekstrargrundvöll hennar. Wolfgang kom hingað til lands 1994 með seinni konu sinni, Gudrun, þegar stutta, íslenska útgáfan af Niflungahringnum var sýnd í Þjóðleikhúsinu. Vildi Wolfgang að Gudrun tæki við stjórn hátíðarinnar eftir sinn dag, hún andaðist áður en til þess kæmi. Fær hún slæm eftirmæli í kvikmyndinni.

Hálfsystur, Katharina, dóttir Wolfgangs og Gudrunar, og Eva Wagner-Pasquier, dóttir Wolfgangs af fyrra hjónabandi, tóku við stjórn hátíðarinnar haustið 2008 en Eva ætlar að hætta haustið 2015 og ósamið er um framhaldið við Katharinu. Stríðið um stjórnina í Bayreuth mun halda áfram.