17.3.2014 22:50

Mánudagur 17. 03. 14

Viðtal mitt á ÍNN við Ágúst Þór Árnason er komið á netið eins og má sjá hér.

Þetta samtal okkar og umræður á alþingi í síðustu viku urðu til þess að ég rýndi að nýju í bók Össurar Skarphéðinssonar Ár drekans þar sem hann lýsir árinu 2012 þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Í bókinni segir Össur oft frá ESB-viðræðunum eins og ég greini frá í frétt á Evrópuvaktinni í dag.

Fréttin sýnir að allt fram undir þetta hefur verið alið á þeirri blekkingu að ESB-viðræðurnar hafi verið á góðu róli undir forystu Össurar þegar staðreyndin er að síðan í mars 2011 hefur ESB haldið þeim í gíslingu með því að neita að sýna á spilin í sjávarútvegsmálum. Krafa ESB er augljós: að Íslendingar breyti þeim skilyrðum sem birtast í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar alþingis frá sumrinu 2009. Össur og félagar treystu sér ekki til þess.

Þessi staða var á árinu 2012 falin á bakvið yfirlýsingar Össurar um að allt gengi að óskum, hann og menn hans, Evrópuvíkingarnir, eins og hann kallar embættismenn utanríkisráðuneytisins, ynnu hvern sigurinn eftir annan.

Við blasir hins vegar að „slagplan“ Össurar var reist á rangri greiningu. Vandinn í sjávarútvegsmálum stafaði ekki af makrílhagsmunum heldur réðu Frakkar ferðinni. Þeim er sama um makríl. Þeir vildu ekki og vilja ekki að ESB stækki meira um þessar mundir.

Af bók Össurar má ráða með kröfum um trúnað í utanríkismálanefnd alþingis hafi verið komið í veg fyrir að rætt væri opinberlega um ESB-viðræðurnar á réttum grunni frá árinu 2011.