15.3.2014 23:55

Laugardagur 15. 03. 14

Þegar farið á sýningu sem hlotið hefur mikið lof kann maður að hafa myndað sér skoðun á þann veg að verkið stendur ekki undir væntingum þegar á hólminn er komið. Þetta átti ekki við um óperuna Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson í leikstjórn Stefáns Baldurssonar sem nú er sýnd í Hörpu. Naut ég þriðju sýningar hennar í kvöld.

Friðrik segir í leikskrá að óperuformið leyfi aðra framsetningu en öll önnur listform þar sem tónlistin magni tilfinningar og innra líf persónanna. Vissulega gerist þetta í Ragnheiði en tónlistin, umgjörðin öll og framganga söngvara er með þeim hætti að hvergi er ofgert, ekki leikið á tilfinningar áheyrenda heldur gengið beint til verks og hinir dramatísku atburðir bornir fram vafningalaust þannig að áhorfandinn er næsta berskjaldaður gagnvart harmleiknum. Styrkur sýningarinnar felst í einfaldleikanum.

Sagan gerist í Skálholti rúmum hundrað árum eftir siðaskipti. Athygli vekur hve miklum átrúnaði er lýst á Maríu mey, hina heilögu Guðsmóður, í sjálfum biskupsgarði. Þessa átrúnaðar gætir enn í dómkirkjunni í Skálholti. Í Hallgrímskirkju er einnig Maríualtari og hið sama er að segja um Háteigskirkju. Í sumum mótmælendakirkjum erlendis er bannað að syngja lofsöngva um heilaga Maríu eins og íslenskir kórar hafa kynnst.

Sýningunni í kvöld var tekið með kostum og kynjum.

Það er ótrúlegt að lesa frásagnir af útifundi á Austurvelli þar sem fluttar eru barátturæður sem reistar eru á þeirri skoðun að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi stöðvað ESB-viðræðurnar. Nú liggur ótvírætt fyrir að ESB stöðvaði viðræðurnar á árinu 2011 þegar fulltrúar þess neituðu að afhenda rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál. Því má velta fyrir sér hvort ríkisstjórnin hafi flýtt sér um of með tillögu sína um afturköllun. Betri greining á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og ályktun dregin af henni hefði gert allan ófrið undanfarinna vikna óþarfan. Afturköllunin er vissulega nauðsynleg til að koma málinu úr farvegi Össurar Skarphéðinssonar en hún er óþörf til að stöðva viðræðurnar, Össur skildi við þær á skeri. ESB hefur engan áhuga á að losa þær þaðan.