9.3.2014 23:00

Sunnudagur 09. 03. 14

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur snúist til varnar fyrir sjálfan sig vegna frétta um að seðlabankinn hafi borið kostnað vegna málaferlanna sem Már stofnaði til í því skyni að fá laun sín hækkuð. Málsvörnin felst í því að málið hafi aldrei snúist um Má heldur um seðlabankann og sjálfstæði hans – það hafi verið skerðing á sjálfstæðinu að kjararáð sá til þess að enginn á launum hjá ríkinu hefði hærri laun en Jóhanna forsætisráðherra.

Sé málum farið á þennan veg er undarlegt að Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs seðlabankans, skuli ekki hafa tekið þetta fyrir í bankaráðinu. Hvers vegna lét hún hjá líða að ræða þetta prinsipp-mál á þeim vettvangi?

Hér er eitthvað málum blandið. Veikir málatilbúnaðurinn traust seðlabankans og ekki var það til að efla traustið að Már taldi mega rekja fréttina í Morgunblaðinu um greiðslu seðlabankans til þess hvað hann stóð sig vel í Kastljósinu hjá Helga Seljan! Þessi yfirlýsing seðlabankastjórans í fréttatíma sjónvarps ríkisins ber vott um sérkennilegt yfirlæti.

Höskuldur Ásgeirsson, fyrrv. forstjóri Flugstöðvar Leif Eiríkssonar, fann að því í grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. mars að Þórólfur Árnason gegndi bæði formennsku í stjórn Isavia og Fríhöfninni, undirfélags Isavia. Þórólfur bregst við í viðtali við Morgunblaðið laugardaginn 9. mars og segir „að sjálfstæði Fríhafnarinnar sé tryggt með því að þrír af fimm stjórnarmönnum hafi engin tengsl við Isavia. Þeim hafi verið fjölgað úr þremur í fimm í fyrra til þess að auka sjálfstæði dótturfélagsins“.

Þetta viðhorf Þórólfs er í ætt við furðulega málsvörn Más Guðmundssonar. Það er ný kenning í stjórnsýslunni að maður sé ekki vanhæfur af því að samstarfsmenn hans séu það ekki! Það er stórundarlegt að fjármálaráðuneytið skuli láta þessa ámælisverðu skipan mála í flugstöðinni líðast.