Laugardagur 08. 03. 14
Stuðningsmenn mótmælafundanna á Austurvelli draga úr eigin trúverðugleika og mótmælanna sjálfra með því að segja rangt frá fjölda fólks sem sækir fundina. Fréttastofa ríkisútvarpsins og fréttastofa 365 miðla eru notaðar til að miðla ofurtölum. Fréttastofa ríkisútvarpsins reyndi að skapa sér skjól í dag með því að vitna í lögregluna og segja á hverju hún reisti mat sitt. Hér skulu talnarunur ekki raktar en af þeim má ráða að óánægju gæti hjá stuðningsmönnum aðgerðanna, annars reyndu þeir ekki stöðugt að fjölga þátttakendum í fréttum.
Augljóst er að þeir sem að mótmælunum standa leggja sig fram um að ýta ESB-málinu til hliðar í kynningu á þeim. Í auglýsingum er látið sem þau beinist að kröfunni um að kjósendur komi að ákvörðunum. Markmiðið er að veikja trú manna á fulltrúalýðræðið með kröfu um beint lýðræði. Þetta er raunar í hróplegri andstöðu við ESB-aðild. Innan sambandsins er allt gert til að forðast þjóðaratkvæðagreiðslur.
Þótt ESB-málið sé hvatinn að mótmælafundunum hefur það horfið í skuggann sem sannar enn hve miklu skiptir að ýta því af innlendum stjórnmálavettvangi og snúa sér að því sem meiru skiptir.
Hin furðulega ráðstöfun Láru V, Júlíusdóttur, þáv. formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands, að ákveða upp á sitt einsdæmi að láta bankann greiða málskostnað Más Guðmundssonar bankastjóra vegna kjaradeilu hans er aðeins lokapunktur í máli sem aldrei hefði orðið nema vegna þess að Már taldi sig svikinn af þeim sem fólu honum bankastjórnina, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Hér á vefsíðunni rakti ég ítarlega á sínum tíma hvernig staðið var að því að fá Má til starfa sem seðlabankastjóra og allt möndlið í kringum launamál hans. Þar sögðu einhverjir ekki alla söguna og það hefur ekki heldur verið gert í þeim þætti sem hlýtur nú að boða endalokin á bankastjóraferli Más.