16.3.2014 22:50

Sunnudagur 16. 03. 14

Gjaldtakan við Geysi vekur að vonum mikla athygli. Tilraunir ríkisins til að stjórna henni hafa reynst árangurslausar. Innheimtan er því að öðrum þræði hluti þess andófs gegn ríkisvaldinu sem víða verður vart. Landeigendur vilja sjálfir taka ákvörðun um aðgang að eign sinni og hafa að engu vilja framkvæmdavaldsins. Höfðað er til sambærilegra tilfinninga hjá þeim sem boða til útifunda á Austurvelli undir merkinu thjod.is.

Það er ekki auðvelt fyrir stjórnmálamenn að fóta sig á þessum breytingaskeiði stjórnarhátta. Sé vilji til þjóðaratkvæðagreiðslna jafnríkur og þeir láta sem nú safna undirskriftum á vegum thjod.is er óhjákvæmilegt að bregðast við honum á stjórnmálavettvangi. Það verður best gert með setningu ákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrá og lög um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

Skynsamlegt er að undirbúa hvert skref við innleiðingu almennrar reglu um þjóðaratkvæðagreiðslu vel með umræðum sem ekki eru litaðar af afstöðu til eins máls eins og er nú í tengslum við stöðvun ESB-viðræðnanna.