18.3.2014 22:50

Þriðjudagur 18. 03. 14

Í kvöld sat ég fyrir svörum á Útvarpi Stam hjá Árna Heimi Ingimundarsyni og ræddum við um heima og geima í 80 mínútur. Á útvarpið má hlusta á rás 98,3 en Árni Heimir heldur úti þessari stöð á rásinni í einn mánuð.

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif Krím-deilan hefur á stöðuna á norðurslóðum. Um það er meðal annars fjallað í grein í Politiken eins og lesa má hér.

Komi til þess að aukin spenna leiði til þess að skipaferðum fækki fyrir norðan Rússland breytast hugmyndir manna um aukin umsvif stórra skipafélaga hér á landi. Raunar ríkir mikil óvissa um hvort Ísland verði nokkru sinni millistöð eða hér verði gerð umskipunarhöfn fyrir risaskip í Norður-Íshafssiglingum.

Liður í utanríkisstefnunni sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur mótað eru náin samskipti við Rússland og samband við Vladimír Pútín. Forsetinn verður að endurskoða afstöðu sína í ljósi yfirlýsinga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að alþjóðasamfélagið verði að senda skýr og neikvæð skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi.  Gunnar Bragi sagði í fréttatíma ríkisútvarpsins í dag:

„Við munum vera í þeim hópi sem gagnrýnir og mótmælir þessari aðferð rússneskra stjórnvalda. Það er mikilvægt að gera það mjög ákveðið. Við getum ekki horft upp á að hvort sem Rússar ákveði að halda áfram þessari vegferð sinni eða einhverjir aðrir grípa til þess að virða ekki landamæri eða sjálfsákvörðunarrétt og fullveldi ríkja, þá verðum við að stíga fast niður fæti og taka strax á málum.“

Vladimír Pútín á heimboð frá Ólafi Ragnari – skyldi boðið verða afturkallað?