Föstudagur 07. 03. 14
Fyrir nokkrum vikum hótaði Reynir Traustason, ritstjóri DV, mér vegna orða hér á síðunni um samtökin No Borders og ályktunar um að þau hefðu áhrif á ritstjórn DV. Ritstjórinn taldi það af og frá og lögfræðingur hans sendi mér ábyrgðarbréf með kröfum fyrir hönd skjólstæðings síns. Google sagði mér að Jón Bjarki Magnússon, rannsóknarblaðamaður á DV, hefði komið fram á samkomu á vegum samtakanna Attac og No Borders á menningarnótt við Hegningahúsið við Skólavörðustíg. Ég taldi Jón Bjarka hafa flutt ræðu en hann sagðist hafa farið með ljóð.
Málið er þannig vaxið að ætla má að einkum hafi vakað fyrir ritstjóranum að þagga niður í mér og fæla frá að gagnrýna efnistök DV eða skrif Jóns Bjarka. Hann skrifar nær daglega eitthvað misjafnt um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og leggur net sín þannig að allt er tortryggilegt sem snertir hana, þar á meðal frændfólk hennar. Jón Bjarki minnir í sömu andrá á rannsókn lögreglunnar á því sem DV telur leka úr innanríkisráðuneytinu. Blaðið segir nú að falsað minnisblað sé í umferð. Varla er það komið úr ráðuneytinu?