3.3.2014 22:55

Mánudagur 03. 03. 14

Dr. Andreas Schleicher, aðstoðarframkvæmdastjóri menntamála hjá  OECD, flutti ræðu  á Menntadegi atvinnulífsins í dag. OECD, efnahags- og framfarastofnunin í París, stendur á þriggja ára fresti að PISA-könnuninni á færni 15 ára nemenda í 65 löndum en niðurstöður síðustu könnunar voru kynntar í byrjun desember 2013. Hún sýndi að  íslenskum börnum hafði hrakað í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði undanfarin ár. PISA-könnun OECD, mælir færni 15 ára nemenda 65 landa og er lögð  fyrir á þriggja ára fresti.   

Á ruv.is er haft eftir Schleicher:

„Nemendur [á Íslandi] virðast ekki fá allan sannleikann um námsframmistöðu sína frá skólakerfinu. Lítið er um hlutlausan samanburð og yfirsýn. Drengir hafa til dæmis mun hærra sjálfsmat en námsárangur þeirra endurspeglar. Greinilegur munur er á hugsunarhætti nemenda á Íslandi og t.d. nemenda í Austur-Asíu. Ef ég spyr íslenskan nemanda hvernig hann verði góður í stærðfræði segja margir hæfileika ráða því; að fæðist maður ekki sem stærðfræðiséní sé best að gera eitthvað annað. Ef nemendur í Austur-Asíu eru spurðir sömu spurningar svara þeir hins vegar að þetta sé undir þeim sjálfum komið. Þar gildir sú trú að skólinn snúist ekki um að draga fólk í dilka.“

Hvað felst í þessari ábendingu? Endurspeglar hún það sem dregið var fram íslenska skólakerfinu til ágætis til að vega gegn lélegri útkomu í Pisa-könnuninni: að nemendum liði vel íslenskum skólum. Þeim er talin trú um að þeir séu betri en þeir eru og fá ekki vitneskju um námsframmistöðu sína. Það er í raun furðulegt að búist sé við því að þeir sem eru í skólakerfi þar sem ekki er lögð áhersla á að árangur sé í samræmi við það sem maður leggur á sig standi sig vel í alþjóðlegum samanburði.