31.3.2014 21:10

Mánudagur 31. 03. 14

Það rifjaðist upp vegna umræðna um að Sveinn Andri Sveinsson væri enn einu sinni tekinn til við að ræða um að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn að á landsfundi flokksins fyrir þingkosningar 2009 var ákveðið að setja það sem skilyrði fyrir stuðningi flokksins við ESB-aðildarumsókn að hún yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þetta var gert í sáttaskyni við minnihluta ESB-aðildarsinna innan flokksins. Þeir stóðu við sinn hluta sáttarinnar með auglýsingaherferð gegn henni fyrir þingkosningarnar.

Alþingi hafnaði sáttaleið Sjálfstæðisflokksins 16. júlí 2009.

Á landsfundinum 2009 og öllum landsfundum síðan hefur afdráttarlaus meirihluti fundarmanna verið andvígur aðild að ESB. Á fundunum síðan hefur hins vegar jafnan verið gerð tilraun til sátta við ESB-aðildarsinna. Á landsfundinum árið 2013 höfnuðu þeir sáttum, eftir það gekk fundurinn lengra í andstöðu sinni við aðildarviðræðurnar en ella hefði verið.

Það hefur jafnan verið kjarnaatriði hjá Sjálfstæðisflokknum að þjóðin veitti samþykki sitt til ESB-viðræðna. Nú hefur þetta atriði verið afbakað eins og annað vegna ESB-málsins og þar hafa Sveinn Andri og skoðanabræður hans verið fremstir í flokki. Langlundargeð forystu Sjálfstæðisflokksins gagnvart Sveini Andra og skoðanabræðrum hans er meira en góðu hófi gegnir, ekki síst vegna þess að þessi fámenni hópur metur það einskis þegar á hólminn er komið að tekið sé tillit til skoðana hans. Hópurinn krefst þess að farið sé á svig við vilja meirihluta sjálfstæðismanna.

Sveinn Andri á jafnan greiða leið að fjölmiðlum eins og ég lýsi á Evrópuvaktinni og lesa má hér.