5.9.2001

Vika símenntunar - málþing

Ísland og umheimurinn –
Tungumála- og tölvukunnátta.


Vika símenntunar,
5. september, 2001.



Vika símenntunar er að þessu sinni haldin undir kjörorðinu: Menntun er skemmtun og sérstök áhersla er lögð á kunnáttu í tungumálum og færni við að nýta tölvutæknina. Hófst vikan einmitt í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum með því að kynnt var átaksverkefni BSRB í tölvu- og upplýsingatækni fyrir félagsmenn sína og hinir fyrstu þeirra hófu nám á einu af 100 námskeiðum þessa verkefnis, en þau verða haldin víðsvegar um landið.

Námskeiðin miða ekki síst að því að opna þátttakendum ný tækifæri, sem þeim gafst ekki kostur á að kynnast á skólaárum sínum. Raunar er það ekki fyrr en með nýjum námskrám frá sumrinu 1999, sem tungumála- og tölvukunnáttu er skipað í fyrirrúm í skólakerfi okkar.

Þegar ég kynnti stefnuna að baki nýju námskránum lagði ég áherslu á nokkur forgangsatriði, sem hafa ætti að leiðarljósi. Um tungumálaþekkingu sagði, að hún ætti að vera á heimsmælikvarða. Boðað var, að áhersla á tungumál yrði aukin verulega. Ákveðið var, að enska yrði fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólanum og hæfist kennsla í henni tveimur árum fyrr en verið hafði og dönskukennslu yrði skipað þéttar í efri bekkjum grunnskólans auk þess sem bjóða ætti nemendum nám í þriðja tungumáli í 9. og 10. bekk. Jafnframt var ákveðið, að nám í þremur tungumálum yrði skylda á öllum bóknámsbrautum framhaldsskóla.

Í nýju skólastefnunni að baki námskránum var einnig lögð rík áhersla á upplýsingatækni, og ætti hún að verða sjálfsagt hjálpartæki í öllum námsgreinum. Upplýsingalæsi, það er hæfni til að safna, greina og setja fram upplýsingar, skyldi verða skyldunámsgrein frá upphafi til loka grunnskóla. Lögð yrði mikil rækt við almenna upplýsingatækni og leikni í notkun tölvu í námi og starfi. Leikni á lyklaborð og ritvinnsla skyldi verða skyldunámsþáttur frá 4. bekk til loka grunnskóla þannig að ekki yrði þörf fyrir slíka kennslu í framhaldsskóla. Sagt var, að öllum grunnskólabörnum væri nauðsynlegt að hafa aðgang að margmiðlunartölvum og netinu. Í tilraunaskyni yrði sett á laggirnar ný upplýsinga- og tæknibraut í framhaldsskólum, sem meðal annars væri ætlað að bæta úr þörf hins íslenska tölvuiðnaðar fyrir menntað fólk og búa nemendur undir frekara nám á þessu sviði.

Þessi stefna var kynnt í febrúar 1998 og að öllu þessu hefur verið markvisst unnið síðan. Hefur vegur tölvutækninnar raunar vaxið mun hraðar innan skólakerfisins en við væntum. Til að þróa notkun hennar stofnaði menntamálaráðuneytið meðal annars til samstarfs við þrjá grunnskóla og þrjá framhaldsskóla á árinu 1998, svonefnda UT-skóla og koma sveitarfélög og Landssíminn einnig að þessu verkefni, sem ekki er enn lokið.

Sumarið 1999 tók ég ákvörðun um að stefnt skyldi að fartölvuvæðingu framhaldsskólanna og yrði haft að leiðarljósi, að nemendur keyptu sjálfir tölvur, en örbylgjukerfi yrði komið upp innan skólanna, þannig að unnt yrði að tengja tölvur netinu þráðlaust. Hefur áhugi nemenda og skóla við að framkvæma þessa stefnu verið meiri en ég vænti og kennarar hafa lagt verulega mikið af mörkum með því að taka upp nýja kennsluhætti.

Fleira er verið að reyna en þetta í skólunum, því að nú í vetur verður gerð tilraun með notkun smáskilaboða farsíma (SMS) og samskiptaforritsins iPulse við verkefnavinnu nemenda.

Nú hefur menntamálaráðuneytið kynnt stefnu sína varðandi dreifnám, það er blöndu að staðbundnu námi í skóla og fjarnámi. Í því felst, að hefðbundin stundatafla er brotin upp og nemendur eru ekki endilega á sama stað á sömu stundu samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi. Ekkert er því til fyrirstöðu að stunda dreifnám við fleiri en einn skóla samtímis. Dreifskóli verður ekki til í einni svipan heldur er hér um þróun að ræða, sem byggist á samverkan ólíkra þátta, og mun vafalaust taka nokkur ár að stilla þá strengi saman.

Sumir segja, að frá upphafi skólastarfs hafi aldrei neitt komið til sögunnar, sem hafi jafnróttæk áhrif á samskipti nemanda og kennara og upplýsingatæknin. Hefur menntamálaráðuneytið þrjú ár í röð efnt til svonefndra UT-ráðstefna í því skyni að meta stöðu þessara mála í íslenskum skólum. Hafa þær verið mjög fjölsóttar og endurspegla mikið sóknarafl skólanna.

Ég ætla ekki að spá neinu um framvinduna. Á hverjum degi gerist eitthvað nýtt, til dæmis var sagt frá því í dag, að í Garðabæ hefði bæjarstjórnin ákveðið að fartölvuvæða grunnskólana. Eitt er þó víst, að þessar breytingar eru allar til þess fallnar að auðvelda skólum að opna dyr sínar í þágu símenntunar. Kraftar hinna góðu starfsmanna skólanna eiga í vaxandi mæli eftir að nýtast langt út fyrir veggi þeirra. Fjarnám ryður sér til rúms í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum með miklum hraða.

Um allt land starfa símenntunarmiðstöðvar í samvinnu við skóla og hafa þær á skömmum tíma skapað mörgum nýjar forsendur til að njóta sín betur í starfi í krafti aukinnar menntunar. Ég ætla að nefna tvö dæmi um áhrif upplýsinga- og tölvutækninnar.

Í viku símenntunar á síðasta ári fór ég í Borgarnes og tók þátt í eftirminnilegum fundi, þar sem konur víðsvegar af Vesturlandi lýstu reynslu sinni af tölvunámskeiði, sem þær höfðu stundað. Fór ekki fram hjá neinum, að þær litu þannig á við brautskráninguna, að þeim hefðu verið opnaðar nýjar dyr. Þær væru ekki að ljúka neinu heldur fara inn á nýja braut, þar sem þeim gæfist kostur á að mennta sig enn frekar án tillits til þess, hvort þær byggju yst á Snæfellsnesi eða annars staðar.

Fyrir tæpum tveimur vikum var ég vestur á Reykhólum á fundi með vestfirskum sveitarstjórnarmönnum. Var meðal annars opnaður fjarfundabúnaður í grunnskólanum við hátíðlega athöfn. Þá var rifjað upp, að haustið 1998 hófst fjarnám á Ísafirði í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri og innrituðust níu konur í námið. Minnist ég þess vel, þegar ég heimsótti þær í fyrsta sinn í heimavist Mennskólans á Ísafirði, þar sem þá var aðstaða til að fylgjast með fjarfundabúnaðinum. Sögðu þær, að án þessa námsframboðs hefðu þær líklega allar flutt frá staðnum þá um haustið til mennta sig meira. Nú eru þrjú ár liðin og vestfirsku sveitarstjórnarmennirnir sögðu mér, að í haust væru um 100 nemendur á Vestfjörðum innritaðir í fjarnám í háskólum landsins. Þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hve mikil lyftistöng þessi þróun er fyrir þá, sem nýta sér hin nýju tækifæri, og hve það styrkir einstök byggðalög, að þeir þurfi ekki að hverfa á brott úr þeim vegna námsins.

Við vitum það öll, að góðar viðtökur efla menn til dáða. Þetta hafa þeir reynt, sem starfa að símenntun – og nú leggjum við áherslu á, að menntun sé skemmtun um leið og hún opnar nýjar dyr og á það ekki síst við um kunnáttu í tungumálum og tölvutækni.

Í dag verður hér á þessu málþingi fjallað um gildi þess fyrir þjóðfélagið, einstaklinga og fyrirtæki að afla sér aukinnar þekkingar, litið verður til áhrifanna á ferðaþjónustuna og hvernig kennsluhættir breytast með tölvunni auk þess sem við munum fræðast um stöðu íslenskunnar í alheimssamfélaginu. Vil ég þakka öllu því ágæta fólki, sem leggur okkur lið með fyrirlestrum og eru sumir langt að komnir eins og Guðrún Magnúsdóttir, sem rekur einstætt frumkvöðlafyrirtæki sitt á sviði tungutækni í Grikklandi.

Gildi þess að kunna mörg tungumál verður aldrei ofmetið en Guðrún hefur náð miklum árangri við nýta tölvur til að þýða texta af einni tungu á aðra. Á því sviði gerist það þó ekki frekar en öðrum, að tölvurnar komi í stað mannlegra samskipta og nú á tungumálaári Evrópu er einmitt áréttað, hve tungumálakunnátta er mikilvæg til að stuðla að því að uppræta fordóma og stuðla að góðum samskiptum milli fólks af ólíku þjóðerni.


Góðir fundarmenn!

Ég ætla að ljúka máli mínu með að því að minna á það, að af hálfu menntamálaráðuneytisins er áfram unnið að því að skapa sem best rafrænt þekkingar- og vinnuumhverfi fyrir þá, sem stunda nám, rannsóknir eða hvers konar störf önnur. Fjögur þessara verkefna falla einstaklega vel að því að auðvelda þeim að mennta sig, sem hafa vald á tungumálum og tölvutækni.


1. Unnið er að því að stofna hlutafélag um nýtt upplýsingakerfi fyrir bókasöfn í samstarfi við sveitarfélög. Kerfið er keypt frá fyrirtækinu Ex Libris og öll stærstu sveitarfélög landsins hafa samþykkt þátttöku í hlutafélaginu um það. Nýja kerfið sameinar öll bókasöfn landsins í eitt heildarkerfi og þaðan verður unnt að fá upplýsingar um bókakost almenningsbókasafna, skólabókasafna, sérfræðibókasafna og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Í þessu felst einfaldlega bylting fyrir þá, sem nýta sér efni bókasafna og allur aðstöðumunur við að átta sig á því, hvað í söfnunum er að finna, hverfur.

2. Samið hefur verið um aðgang að rafrænum gagnasöfnum, sem eru opin öllum landsmönnum á sama hátt og Encyclopaedia Britannica, en segja má að brautin hafi verið rudd með landsaðgangi að henni. Fari menn inn á vefsíðuna hvar.is sést best, hvað er í boði, en mér er sagt, að nú sé unnt að kynna sér efni 6300 rafrænna tímarita. Verkefnisstjórn á vegum ráðuneytisins hefur unnið að gerð samninga um þennan aðgang síðan í ársbyrjun 2000 og telur hún sig nú hafa náð samningum um öll tímarit og almenna gagnagrunna, sem einhverju skipta. Samningar hafa verið gerðir til loka árs 2002 en þá verður framhaldið metið með hliðsjón af því hversu vel grunnarnir hafa nýst og kostnaði. Nú er unnið að því að tryggja fjármögnun á grunnunum á þessu ári og því næsta. Næsta skref er að huga að samningum um sérfræðigrunna fyrir afmarkaða hópa notenda.

3. Undir merkjum tungutækni er unnið að því að treysta stöðu íslenskrar tungu í hinum stafræna heima. Samið hefur verið við Háskóla Íslands um þjónustu við tungutækniverkefni í tengslum við meistaranám sem skólinn er að koma á fót. Styrkir vegna þróunarverkefna fyrirtækja og texta og talmálsgrunna verða auglýstir fljótlega. Unnið er að samningum við Microsoft um frekari þýðingu á hugbúnaði og tengingu þess verkefnis við tungutækniverkefni. Annar undirbúningsfundur verður haldinn í Kaupmannahöfn á næstunni og í framhaldinu stefni ég að því að ræða við forstjóra Microsoft á Norðurlöndum

4. Menntamálaráðuneytið fékk sérfræðinga til að kanna, hvaða leiðir væru bestar til að tryggja sem hagkvæmasta fjarskiptaþjónustu fyrir framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar. Í framhaldi af þessari könnun hefur verið rætt við fjarskiptafyrirtæki um þessa þjónustu og hvernig henni verði best háttað. Verið er að kanna forsendur þess að bjóða út fjarskiptaþjónustu fyrir framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar sem tengist rannsókna- og háskólaneti og myndi þannig heildstætt fjarkennslunet.

Hvert eitt þessara fjögurra atriða skiptir miklu til að styrkja stöðu þeirra, sem vilja nota upplýsingatæknina til að mennta sig, eyða fjarlægðum og njóta sín sem best við nútíma aðstæður. Með því að ná góðum árangri á öllum þessum fjórum sviðum verður tekið stórt stökk inn í framtíðina og Íslandi skipað í fremstu röð á heimsmælikvarða.