2.3.2014 20:10

Sunnudagur 02. 03. 14

Sorglegt er að fylgjast með því hvernig ESB-viðræðu- eða aðildarsinnar telja sér sæma að orða hugsanir sínar þegar þeir taka til við að bíta frá sér á opinberum vettvangi. Síðasta dæmið um þetta er bútur úr sjónvarpsþætti sem sýndur var í fréttum sjónvarpsins í kvöld þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir veittist að þeim sem eru ósammála henni um ESB-mál innan Sjálfstæðisflokksins.

Þegar við Friðrik Sophusson beittum okkur fyrir sátt um málið á landsfundinum árið 2011 var Þorgerður Katrín ósátt við niðurstöðuna og hún hefur líklega orðið enn ósáttari eftir síðasta landsfund á árinu 2013. Eitt er að verða undir á fundi sem á annað þúsund manns sækja annað að  hallmæla þeim sem menn eru ósammála með skammaryrðum. Það bendir ekki til þess að menn hafi trú á eigin málstað þegar gripið er til þess ráðs að útmála þá sem menn eru ósammála á þann veg sem heyra mátti í sjónvarpsfréttunum.

Á ríkisútvarpinu leggja menn sig fram um að leita þá uppi í röðum sjálfstæðismanna sem eru fulltrúar þeirra um það bil 10% flokksmanna sem sætta sig ekki við afstöðu meirihluta flokksmanna. Þegar sagt er frá því sem þetta fólk hefur til málanna að leggja er ekki vitnað til efnislegra sjónarmiða heldur beinist athygli fréttamanna að því sem snýr að Sjálfstæðisflokknum.

ESB-málið snýst ekki um Sjálfstæðisflokkinn heldur þá staðreynd að ESB-viðræðunum var siglt í strand í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og á alþingi er ekki meirihluti fyrir því að hrinda þeim af stað aftur.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið að gera úttekt á stöðu viðræðnanna. Höfundur þess hluta skýrslunnar sem snýr að aðildarferlinu kemst að þeirri niðurstöðu að viðræðunum sé „sjálfhætt“ eins og fram kom í kvöldfréttum ríkisútvarpsins í dag. Hér má lesa ummæli Ágústs Þórs Árnasonar um þetta efni.