27.3.2014 21:15

Fimmtudagur  27. 03. 14

Ríkisstjórnin hefur kynnt tillögur um skuldaniðurfærslu sem eru þúsundum manna til hagsbóta og undir forystu fréttastofu ríkisútvarpsins er hafin herferð til að mála aðgerðina í svo dökkum litum að meira að segja er vitnað í stjórnendur einhvers útvarpsþáttar sem ber hið niðurrífandi nafn Harmageddon til að undirstrika að hér sé eitthvað illt og vanskapað á ferð.

Stundum er tekið dæmi af sjónvarpsstöðinni Fox News og andstöðu hennar við demókrata í Bandaríkjunum til að hneykslast á hlutdrægni í fréttamennsku. Fréttamenn Fox News þykjast ekki vera óhlutdrægir.

Miðvikudaginn 25. mars kvaddi Össur Skarphéðinsson sér hljóðs á alþingi um störf þingsins. Honum tókst að ljúka máli sínu þótt farsími hans hringdi undir ræðu hans. Össur hvatti ríkisstjórnina til að vinna að afnámi gjaldeyrishafta í samvinnu við þingmenn. Taldi hann þetta vera „stærsta og erfiðasta og sennilega mikilvægasta efnið“ sem við þingmönnum blasti. Össur sagði:

„Mál eins og afnám gjaldeyrishafta er af þeirri stærðargráðu að mjög mikilvægt er að um það myndist mjög breið samstaða.[…] Sömuleiðis sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri fyrir skömmu að þegar Íslendingar réðust í afnám gjaldeyrishafta hefðu þeir bara eitt skot í byssunni. Ég tel mjög mikilvægt að það verði ekki feilskot vegna skorts á samráði af hálfu ríkisstjórnarinnar.“

Undir þessi hvatningar- og viðvörunarorð Össurar skal tekið. Gildi orðanna er þó fyrst og síðast að þau endurspegla kúvendingu Össurar í málinu. Á meðan hann gegndi embætti utanríkisráðherra og barðist fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu datt honum ekki í hug að losna mætti við gjaldeyrishöftin án þess að ganga í ESB eða að minnsta kosti að fá að kíkja í pakkann. Nú flytur hann ræðu um afnám haftanna og kjarni hennar er ekki nauðsyn aðildar að ESB heldur að hann verði hafður með í ráðum.

Meðferð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á gjaldeyrishöftunum og hugmyndir hennar um afnám þeirra voru aldrei kynntar með sátt í huga heldur til að auka á ágreining um ESB-mál.