Miðvikudagur 19. 03. 14
Eins og ég sagði frá í gær fór ég í viðtal við Árna Heimi Ingimundarson á Útvarpi Stami og má nálgast það og fleiri viðtöl Árna Heimis hér á þessari síðu.
Ólafur Ragnar Grímsson var í Bodö í Norður-Noregi í dag á ráðstefnu i Nordland-háskóla og setti ofan í við aðstoðarráðherra í norska utanríkisráðuneytinu fyrir að fara gagnrýnisorðum um yfirgang Pútíns og félaga á Krím-skaga og gagnvart Úkraínu. Taldi Ólafur Ragnar að með svona tali væri unnt að eyðileggja 10 ára viðleitni til að efla samstarf norðurskautsríkjanna á einni klukkustund. Sjá hér frásögn af ráðstefnunni.
Engum sem veit um áhuga Ólafs Ragnars á að tengja alla þræði heimsmála í gegnum norðurpólinn kemur á óvart að hann taki kipp og láti í sér heyra ef hann telur að hin nýja heimsmynd sem hann hefur kynnt á óteljandi ráðstefnu vera að bresta. Það er þó ekki við Norðmenn eða norsk stjórnvöld að sakast í því efni heldur Pútín og félaga sem leggja sig fram um að brjóta allar brýr að baki sér með fyrirlitningu sinni á alþjóðalögum. Ætli Ólafur Ragnar að verða hinn mikli brúarsmiður eftir það rof sem orðið hefur verður hann að láta að sér kveða annars staðar en á háskólaráðstefnu í Bodö.
Í ræðunni sem Ólafur Ragnar flutti í Nordland-háskólanum nefndi hann til sögunnar öll fyrirmennin sem hann hefur hitt á fundum um málefni norðurslóða. Það sem kemur á óvart fyrir utan ávítur hans í garð norska embættismannsins er að hann skuli yfirleitt hafa gefið sér tíma til að fara til Bodö á þessum tíma og taka þar þátt í ráðstefnu með norskum aðstoðarráðherra, aðalræðismanni Rússa í Kirkenes, sendiherrum nokkurra erlendra ríkja í Osló auk fræðimanna.
.