Sunnudagur 23. 03. 14
Á vefsíðu utanríkisráðuneytisins er unnt að kynna sér fundargerðir hópanna sem Össur Skarphéðinsson skipaði til að ræða um aðild að ESB við menn frá Brussel. Þar má til dæmis lesa um 14. og síðasta fund samningahóps um sjávarútvegsmál. Hann var haldinn mánudaginn 29. október. Þar er skráð:
„Formaður greindi frá stöðu mála í sjávarútvegskaflanum. Rýniskýrsla hefur ekki enn verið afgreidd af hálfu ESB og ekki liggur ljóst fyrir hvenær það mun verða. Upplýst verður um framvindu mála eftir því sem tilefni gefst til.“
Hópurinn hafði beðið eftir rýniskýrslunni frá því að rýnifundum lauk 2. mars 2011. Skýrslan hefur ekki borist enn þann dag í dag.
Össur og félagar gerðu fjölmargar tilraunir til að ná í rýniskýrsluna, skiptu meðal annars um ráðherra eins og hér er lýst. Allt kom fyrir ekki. Frakkar tóku pólitíska forystu gegn því að afhenda rýniskýrsluna en Spánverjar og Portúgalar voru með þeim í liði.
ESB-menn fá ekki heimild til að ræða við Íslendinga nema skilyrðum í áliti meirihluta utanríkismálanefndar sé breytt. Össur og Steingrímur J. treystu sér ekki til að hrófla við skilyrðunum, þeir fengu því ekki leyfi til að „kíkja í pakkann“.
Gengur einhver íslenskur stjórnmálamaður fram og segir: Sláum af í sjávarútvegsmálum og fáum að kíkja í pakkann! Ég veit ekki um neinn.