Föstudagur 21. 03. 14
Á FB sagði ég að tilgangur fréttamanna ríkisútvarpsins með því að slá skjaldborg um Óðin Jónsson fréttastjóra á sérstökum félagsfundi væri augljóslega að fæla hæft fólk frá að sækja um fréttastjórastarfið sem hefði verið auglýst. Skilaboðin væru: Við munum ekki una því að annar sé ráðinn en sá sem við samþykkjum.
Ég er viss um að á hvaða vinnustað sem er yrði litið á þetta sem hættulega meinsemd og í andstöðu við eðlilegt jafnvægi innan hans.
Orð Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra má skilja á þann veg að hann vilji uppræta smákóngaveldið innan ríkisútvarpsins. Fréttamennirnir eru á móti breytingu í þá veru. Þeir vilja halda í sinn smákóng.
Sumir þeirra sem gerðu athugasemd við FB-færslu mína töldu að í henni fælist andstaða við ESB-stefnu fréttastofunnar undir stjórn Óðins og þótti fráleitt að fundið væri að henni. Ég hef ekki minnst á ESB í þessu samhengi en viðbrögðin sýna að margir telja að ESB-sinnar missi spón úr aski sínum hætti Óðinn sem fréttastjóri. Draga þeir þá ályktun af fréttaflutningi undir hans stjórn.
Magnús Geir hefur fært málefnaleg rök fyrir almennri uppstokkun á ríkisútvarpinu. Viðbrögð fréttamannafélagsins eru ómálefnaleg. Félagsmenn vilja sérlausn fyrir sig. Hvers vegna? Hvaða sérhagsmuni er verið að verja?