26.3.2014 22:50

Miðvikudagur 26. 03. 14

Í dag ræddi ég við Ásthildi Sturludóttur í þætti mínum á ÍNN og verður samtalið næst sýnt á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Ásthildur hefur verið bæjarstjóri í Vesturbyggð síðan haustið 2010. Þá var hún ráðin og ætlar að starfa áfram eftir kosningar í vor vilji þeir sem verða kjörnir að hún verði áfram. Hún ætlar ekki sjálf í framboð.

Í dag var greint frá samkomulagi Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra og Óðins Jónssonar fréttastjóra um að Óðinn sæki ekki að nýju um starf fréttastjóra sem hefur verið auglýst. Í stað þess dregur útvarpsstjóri uppsögn Óðins til baka og skýrt er frá að hann muni vinna við dagskrárgerð og fréttatengt efni.

Þessi frétt kemur ekki á óvart miðað við framgöngu fréttamannanna sem settu allt uppsagnar- og ráðningarferli hins nýja útvarpsstjóra í uppnám með ótímabærri ályktun á fundi sínum. Hún jafngilti því að þeir mundu ekki starfa undir stjórn annars en Óðins. Mátti draga þá ályktun að annað hvort yrði Óðinn endurráðin eða fréttastofan tæmdist. Útvarpsstjóra voru settir afarkostir.

Hafi legið fyrir þegar fréttamennirnir samþykktu ályktun sína að Óðinn ætlaði ekki að sækja um fréttastjórastöðuna að nýju má líta á ummælin í henni sem einkennilega umgjörð vinsamlega kveðju.