Fimmtudagur 20. 03. 14
Í dag var þess minnst á aðalfundi hvar.is að 15 ár eru liðin frá því að gerður var samningur um landsaðgang að Encyclopaediu Britannicu. Í ræðu sem ég flutti 5. september 2001 og lesa má hér sagði ég:
„Samið hefur verið um aðgang að rafrænum gagnasöfnum, sem eru opin öllum landsmönnum á sama hátt og Encyclopaedia Britannica, en segja má að brautin hafi verið rudd með landsaðgangi að henni. Fari menn inn á vefsíðuna hvar.is sést best, hvað er í boði, en mér er sagt, að nú sé unnt að kynna sér efni 6300 rafrænna tímarita. Verkefnisstjórn á vegum [menntamála]ráðuneytisins hefur unnið að gerð samninga um þennan aðgang síðan í ársbyrjun 2000 og telur hún sig nú hafa náð samningum um öll tímarit og almenna gagnagrunna, sem einhverju skipta. Samningar hafa verið gerðir til loka árs 2002 en þá verður framhaldið metið með hliðsjón af því hversu vel grunnarnir hafa nýst og kostnaði. Nú er unnið að því að tryggja fjármögnun á grunnunum á þessu ári og því næsta. Næsta skref er að huga að samningum um sérfræðigrunna fyrir afmarkaða hópa notenda.“
Þessi stefna sem þarna var kynnt hefur skila góðum og miklum árangri eins og lýst var á aðalfundinum í dag.
Enn einu sinni urðu í dag umræður á alþingi í tilefni af ummælum Ólafs Ragnars Grímssonar um utanríkismál, nú vegna þess sem hann sagði á háskólaráðstefnu í Bodö. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði hið sama og forverar hans hafa sagt undanfarin ár að Ólafur Ragnar ætti sem forseti Íslands að fylgja og kynna utanríkisstefnu sem ríkisstjórnin hefði mótað.
Þessar umræður um yfirlýsingar Ólafs Ragnars eru orðnar næsta innantómar eftir að hann hefur setið á forsetastóli í næstum 18 ár og víst er að þær hafa engin áhrif á hann.