Föstudagur 14. 03. 14
Lengi hefur verið ljóst að ríkisútvarpið dregur taum flóttamanna og hælisleitenda í fréttum. Í dag var þátturinn Víðsjá notaður í þágu þessa baráttumáls stofnunarinnar. Rætt var við þrjá lögmenn sem helga sig málstað þeirra sem leita hingað án þess að hafa ótvíræðan rétt til búsetu eða dvalar lögum samkvæmt.
Þá var Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, einnig í Víðsjá ef marka mátti afkynninguna. Jón Bjarki hefur sérhæft sig í gagnrýni á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra vegna „lekamálsins“ svonefnda sem nú er til rannsóknar hjá saksóknara og lögreglu. Þar kemur hælisleitandi við sögu. Jón Bjarki hefur komið fram sem ljóðskáld undir merkjum samtakanna No Borders sem berjast fyrir auknum réttindum hælisleitenda.
Hvað sem málstaðnum líður er furðulegt að stofnun sem lögum samkvæmt ber að gæta óhlutdrægni skuli ekki huga að því grundvallaratriði í gerð þáttar um umdeilt þjóðfélagsmál að tryggja að allar hliðar málsins séu kynntar.
Fyrir um það bil tveimur áratugum neyddust bankastjórar Landsbanka Íslands til að segja af sér af því að þeir sögðu ekki rétt frá málavöxtum sem snerti risnu og laxveiðar. Var þáverandi viðskiptaráðherra meðal annars lagt til rangt efni í svar á alþingi. Spurningin er hvort sama atburðarás sé að endurtaka sig í Seðlabanka Íslands. Hafi sjálfstæði seðlabankans verið í húfi vegna ákvarðana um laun til bankastjórans er trúverðugleiki bankans í húfi vegna allrar stjórnsýslu í kringum málið.