Þriðjudagur 25. 03. 14
Einkennilegt var að hlusta á Helga Seljan ræða við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra í Kastljósi kvöldsins um ESB og lyktir eða framhald aðildarviðræðna eins og ekkert hefði komið fram annað en spurning um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er staðfest í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og með öðrum opinberum skjölum að ESB stöðvaði aðildarviðræðurnar með því að afhenda ekki rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Engu að síður ræðir fréttaþáttarmaður ríkissjónvarpsins við utanríkisráðherra eins og ekkert hafi í skorist. Hvað veldur? Þekkingarleysi eða fréttastefna ESB-RÚV?
Erfitt er að átta sig á hvernig mönnum dettur í hug að þöggun dugi til að skjóta sér fram hjá að ræða stóra strandið í ESB-viðræðunum. Það verður aldrei unnt að þoka viðræðunum áfram nema Íslendingar sætti sig við að missa stjórn fiskveiðilögsögunnar utan 12 sjómílna. Þannig er staðan en á hana var ekki minnst í Kastljósinu, spurningarnar lutu meira að persónu utanríkisráðherrans en efni málsins.
Svipað var uppi á teningnum þegar Helgi Seljan ræddi um nýlega ferð Gunnars Braga til Kænugarðs. Sjónvarpsmaðurinn hafði áhyggjur af illmennum í bráðabirgðastjórn Úkraínu. Er þetta aðalatriðið þegar rætt er um það sem er á döfinni í landinu? Eða á að ræða um stórpólitísk áhrif innlimunar Krím í Rússland?
Spurning er hvort þeirri skoðun sé laumað að hlustendum frétta ríkisútvarpsins að ástæðulaust sé að dæma Pútín of hart vegna yfirgangs hans – sýna beri Rússum skilning.
Í Spegli ríkisútvarpsins var gefið til kynna að tatarar á Krím hefðu lagt innlimun í Rússland lið. Þetta stangast á við það sem segir í BBC. Þar er því haldið fram að tatarar hafi ekki tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í þágu innlimunarinnar. Ýmsir þeirra hafi raunar lýst ótta við að lenda að nýju undir stjórninni í Moskvu – Jósep Stalín flutti fjölmarga tatara nauðuga frá Krím til Síberíu árið 1944 fyrir að hafa starfað með nasistum.