19.5.2008 20:27

Mánudagur, 19. 05. 08.

Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, flutti ræðu síðdegis á fundi Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) og Varðbergs um varnarmálastofnun og loftrýmisgæslu. Hann rakti á skýran og vel rökstuddan hátt þróun mála frá leiðtogafundi NATO í Riga sumarið 2006, þegar Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fór þess á leit við NATO, að tryggð yrði loftrýmisgæsla við Ísland og til þess, að sett voru varnarmálalög fyrir skömmu með skuldbindingum af Íslands hálfu í þágu þessa samstarfs NATO-ríkjanna um gæslu loftrýmisins.

Bjarni sýndi annars vegar, að ratsjáreftirlit frá Íslandi hefur verið fellt inn í evrópskt ratsjáreftirlit NATO og tengja stöðvarnar á Íslandi þetta net við ratsjárnet NATO í N-Ameríku. Á hinn bóginn brá Bjarni upp glærum frá utanríkisráðuneytinu, þar sem lýst er, hvernig loftrýmiseftirlitið fellur að varnarstefnu NATO frá 2003 um stöðugt eftirlit í lofti og ákvarðanir hermálanefndar bandalagsins um framkvæmd þessa eftirlits. Er umhugsunarefni, hvers vegna málið hefur ekki verið kynnt á þennan hátt áður.

Bjarni velti fyrir sér, hvers vegna Bandaríkjastjórn hefði ekki haft áhuga á að halda sjálf áfram rekstri ratsjárstöðvanna á Íslandi eftir 15. ágúst 2007. Taldi Bjarni, að aðhald í útgjöldum hefði ráðið þessari bandarísku ákvörðun - varnarmálaráðuneytið hefði vitað, að stöðvunum yrði ekki lokað, þótt fé til þeirra kæmi ekki frá Bandaríkjunum. Ég get staðfest af eigin reynslu, að Donald Rumsfeld, þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafði ekki hinn minnsta áhuga á ratsjárkerfinu, eftir að hann hafði kallað varnarliðið héðan á brott.