16.5.2008 23:32

Föstudagur, 16. 05. 08.

Fyrir fund ríkisstjórnar í Ráðherrabústaðnum í morgun hittu þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forystumenn stjórnarandstöðunnar, þau Valgerði Sverrisdóttur, í fjarveru Guðna Ágústssonar, Steingrím J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson og skýrðu þeim frá samkomulagi, sem Seðlabanki Íslands hefði gert við seðlabanka í Noregi, Svíþjóð og Danmörku um aðgang að 500 milljónum evra í hverjum banka í forvarnarskyni fyrir krónuna - en í þessum þremur seðlabönkum ráðstafa menn eigin krónum en ekki evrum, þar sem ríkin eru utan evrulands.

Inn á ríkisstjórnarfund bárust fréttir um, að krónan hefði styrkst strax og seðlabankinn kynnti þetta samkomulag og birt var yfirlýsing Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um frekari ráðstafanir til að efla traust á efnahagsþróuninni.

Tveggja daga flutningi Baugsmálsins lauk fyrir hæstarétti í gær. Niðurstaða réttarins verður væntanlega kynnt í júní. Líklegt er, að þjóðfélagsumræður taki nú á sig annan blæ, því að varnir Baugs hafa ekki aðeins verið í réttarsalnum heldur hafa þær einnig litað afstöðu til manna og málefna utan hans.

Ég sé, að einhverjir leggja þannig út af orðum mínum á fundi Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál í Valhöll 15. maí, að ég sé andvígur þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég skil ekki, hvernig nokkur getur komist að þeirri niðurstöðu, þegar ég hef hvað eftir annað sagt, að ekkert verði að aðild Íslands, nema gengið verði til slíkrar atkvæðagreiðslu. Til hennar verður hins vegar ekki efnt, ef hvorki ríkisstjórn né meirihluti á alþingi standa að baki ákvörðun um aðild og leggja þar með grunn að því, að leitað sé álits þjóðarinnar.